148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

útlendingar.

42. mál
[12:05]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur um breytingu á útlendingalögum með tilliti til fylgdarlausra barna. Ég tel mjög nauðsynlegt að tryggja ungum fylgdarlausum börnum öruggt skjól og að til séu úrræði í formi heimilis þar sem sérstaklega er hlúð að þeim meðan málefni þeirra eru skoðuð.

Í frumvarpinu er verið að leggja til að málefni ungra hælisleitenda séu þegar komin í fast form við komu þeirra til landsins. Það er líka verið að leggja til úrræði sem lögregla og barnaverndaraðilar geta leitað til í þessum málum. Það skiptir líka miklu máli því að þeir hafa kvartað undan því að þeir hafi ekki úrræði eða eitthvað til að leita í með þessi málefni.

Nýlegt mál sem hefur verið í fréttum um stöðu ungs hælisleitanda þar sem hann mátti þola ofbeldi innan veggja fangelsis hér á Litla-Hrauni styrkir þá skoðun mína að efnismeðferð fylgdarlausra barna hér á landi sé ekki viðunandi. Þessi ungi maður er 18 ára og hefur verið kastað á milli kerfa í þau tvö ár sem hann hefur dvalið hér. Það mætti ætla að ef þessi ungi hælisleitandi hefði fengið viðunandi úrræði og athvarf strax væri hann í annarri stöðu í dag.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann og frummælanda hvort hún telji móttöku fylgdarlausra barna hér á landi hafa verið og vera í samræmi við 3. kafla útlendingalaganna sem fjallar um málsmeðferðarreglur í málefnum um alþjóðlega vernd.