148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

útlendingar.

42. mál
[12:09]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni stuðninginn við frumvarpið, verulega gott að heyra það. Ég held líka að frumvarpið, þó að það skerpi á aðkomu barnaverndaryfirvalda og varpi ljósi á þörfina fyrir móttökuheimili fyrir börn, sé ekki endanleg lausn til að tryggja betri þjónustu við börn og ungmenni. Við getum líka velt því fyrir okkur hvort við þurfum til að mynda að endurskoða þær aðferðir sem notaðar eru við aldursgreiningar. Rauði krossinn hefur gert verulegar og alvarlegar athugasemdir við þær aðferðir og ekki bara Rauði krossinn á Íslandi heldur líka alþjóðleg samtök og stofnanir sem hafa velt því fyrir sér hvort þær aðferðir séu góðar og réttlátar. Við þurfum líka að styrkja sveitarfélögin og barnaverndir sem starfa hér um allt land og sér í lagi hér á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjunum til þess að geta veitt þá þjónustu um leið og þessi hópur kemur hingað og leitar til okkar eftir alþjóðlegri vernd.

Ég held að við getum öll sameinast um að gera umbætur í þessum málaflokki, þessum börnum og öðrum viðkvæmum hópum til handa.