148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

útlendingar.

42. mál
[12:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka flutningsmönnum fyrir að leggja fram málið. Þetta er mjög gott mál. Ég vona að málin verði fleiri og reyndar hafa fleiri verið lögð fram á Alþingi núna. Ég held að það sé nokkuð mikið sem þarf að huga að í hinum nýju útlendingalögum sem við erum tiltölulega nýlega búin að setja og búin að laga nokkrum sinnum.

Þetta mál hefur verið lagt fram tvisvar sinnum áður en þá náði það ekki inn í umsagnarferli alla vega ekki þannig að umsagnir hafi borist. Eftir yfirferð á málinu þyki mér það mjög vandað og vel úthugsað og í raun og veru eins og upprunalegu lögin hefði átt að vera, en viðamikil mál á borð við þetta skýrast oft þegar umsagnir um þau berast. Útlendingalögin og útlendingamál eru málaflokkur sem varða í raun og veru allt sem getur hent manneskju í lífinu. Þau mál eru eins misjöfn og mannfólkið sjálft og í fáum málaflokkum, nema hugsanlega varðandi málefni fatlaðra, er um að ræða jafn fjölbreyttan hóp og þarna, fyrir utan það að hluti af hópnum er fatlað fólk.

Þetta er ofboðslega fjölbreyttur hópur, ofboðslega fjölbreytt mál og ofboðslega misjafnt hvernig aðstæður fólks eru. Þegar við búum til lagabálka til að reyna að halda utan um slíka málaflokka kemur aftur og aftur í ljós að við erum að setja mannlífið í box og það er ekki hægt. Við verðum að haga löggjöfinni með tilliti til þess að við getum ekki gert ráð fyrir stöðluðum málum þar sem við gera svona ef þetta gerist, annars hitt. Við verðum á einhvern hátt að gera það vegna þess að þetta eru landslög og þau þurfa að vera útreiknanleg, þau þurfa að vera læsilegri og ekki bara fyrir dómara heldur þarf almenningur og Útlendingastofnun líka að geta lesið lögin og áttað sig á því hver vilji löggjafans í málaflokknum er og hvernig eigi að bregðast við því þegar fólk passar einfaldlega ekki í boxin.

Einn af þeim hlutum sem passar ekki alveg í boxið er hið mannlega og líffræðilega fyrirbæri aldur, sem er ekki klipptur og skorinn, hvorki í lífríkinu né hjá manneskjum. Það er ekki þannig að akkúrat þá sekúndu sem við verðum 18 ára verðum við nógu ábyrg til að kjósa og gifta okkur og hvað eina. Það er ekki þannig að akkúrat þegar við verðum tvítug lærum við að fara með áfengi. Það er ekki þannig að akkúrat þegar við verðum 17 verðum við nógu ábyrg til að keyra bíl. Þetta eru allt viðmiðunarreglur. Við gerum alltaf ráð fyrir því að á einhverri einni sekúndu, á miðnætti á ákveðnum degi breytist aðstæður einstaklingsins skyndilega.

Þegar kemur að áfengiskaupaaldri, lögræði eða bílprófi er þetta ekki hrikalegt mál. Það er allt í lagi að við hittum ekki akkúrat á réttan stað. En þegar kemur að því að taka ákvarðanir um varanlega framtíð fólks skiptir það þó nokkuð miklu máli. Þá skiptir miklu meira máli að við leyfum fólki að njóta vafans, þegar það er einhver spurning um það hvort fólk sé undir eða yfir tilteknum aldri.

Það er í gangi sú mýta í samfélaginu, sem ég hef neyðst til að taka þátt í í gegnum tíðina, að þetta virki þannig að hingað komi fólk og heimti hæli, það heimti gull og græna skóga og það segist vera á barnsaldri. Ég heyri sögur af því að ef það kemur einhver hvítskeggjaður gamall karlmaður og segist vera barn og hafnar því að fara í aldursgreiningu fái hann sjálfkrafa meðferð sem barn. Þetta er bull. Þetta er þvættingur. Þetta er lygi og mýta sem kemur niður á fólki sem þarf vernd, höfum það á hreinu. Við skulum ekki kalla það neitt annað en það er.

Því miður þykir óheiðarleiki alveg sérlega heiðarlegur í þessu málaflokki þegar kemur að nokkrum sjónarmiðum. En ég vil ekki fara mikið út í þá myrku sálma vegna þess að hér fyrir framan okkur er frumvarp sem er hugsað til að bæta stöðu fylgdarlausra barna. Eins og fyrr segir þýðir það ekki þótt einhver hafni aldursgreiningu að farið sé með viðkomandi sem barn, þótt hann segist vera barn. Ef einhvers staðar er vafi eigum við að láta fólk njóta vafans vegna þess að um börn gæti verið að ræða.

Ég tel það talsvert alvarlegra að láta ekki barn sem metið er sem fullorðinn einstaklingur fá réttláta málsmeðferð heldur en að fullorðin manneskja, kannski 19 ára eða 22 ára, sé metinn 17 ára og fái meðferð sem barn. Það er hvergi nærri því eins alvarlegt og að láta barn ekki njóta réttmætra réttinda sinna. Augljóslega hlýtur vafinn að leiða til þess að við eigum frekar að hallast að því að fólk sé börn ef það er ekki bersýnilegt að svo sé ekki.

Þá kemur aftur inn vafaatriði sem er ekki endilega hægt að útkljá, þannig er bara lífið og þannig þurfum við að takast á við þetta. Við þurfum að hafa lög sem gera ráð fyrir því vegna þess að það er ekki þannig að þegar við verðum 18 ára verði tennurnar í okkur öðruvísi eða eitthvað líffræðilegt breytist sisvona. Það er ekki þannig. Við búum ekki í þeim raunveruleika og eigum ekki að þykjast að búa í þeim raunveruleika.

Mig langar að nefna sérstaklega eitt sem vakti mig til umhugsunar, sem er 5. gr. frumvarpsins. Þar er fjallað um að starfsmaður barnaverndaryfirvalda skuli ávallt vera viðstaddur viðtöl Útlendingastofnunar við börn, sem er viðbót frá 5. mgr. 28. gr. fyrri laga. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Sá sem tekur viðtal við barn skal hafa sérþekkingu á málefnum barna. Útlendingastofnun er heimilt að kveðja sérfræðing í málefnum barna sér til aðstoðar.“

Ég ætla ekki að tala fyrir hönd flutningsmanna en þetta rímar mjög vel við sýn mína á Útlendingastofnun. Ég verð að segja, og finnst ekkert gaman að gagnrýna fólk eða stofnanir úr pontu Alþingis, að Útlendingastofnun stendur sig ekki í þessu verkefni. Hún er ekki nógu góð í að fara með þennan málaflokk. Við eigum að segja það upphátt vegna þess að þetta er það mikilvægur málaflokkur að við getum ekki leyft okkur meðvirkni gagnvart stofnunum ríkisins þegar þær standa sig ekki.

Það eru fleiri aðilar sem standa sig ekki. Kærunefnd útlendingamála hlustar stundum ekkert á rök og meira að segja svarar þeim stundum ekki. Síðan er það stjórnkerfið okkar í heild, yfirvöld, í sínum víðasta skilningi, sem standa sig ekki. Við á Alþingi stöndum okkur ekki í þessum málaflokki.

Þótt Útlendingastofnun vinni á gólfinu, eins og sagt er á vondri íslensku, er fleirum um að kenna. Ég hygg því miður að það sé vegna þess að við höfum ekki alveg áttað okkur á ábyrgð okkar. Við erum enn þá tiltölulega einsleitt samfélag — sem mun vonandi breytast með tímanum og ég geri fastlega ráð fyrir og tel þá þróun ekki aðeins jákvæða heldur nauðsynlega — og það er auðvelt fyrir okkur að láta eins og vandamál heimsins komi okkur ekki við, eins og flóttamannakrísan komi okkur ekki við, en hún kemur okkur við. Allt í málaflokknum kemur okkur við. Við getum ekki látið eins og þetta sé einungis vandamál fyrir botni Miðjarðarhafs eða í miðri Evrópu eða í Þýskalandi eða eitthvað slíkt, við verðum líka að taka þátt sjálf. Það getur kostað fórnir. Það þarf ekki að kosta miklar fórnir ef við stöndum rétt að málum, sem ég vona að förum að gera af einhverri alvöru. Við berum ábyrgð.

Stóra spurningin þegar kemur að málaflokknum er í raun hvernig við stöndum að því að taka á móti fólki, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna. Þá er algengt að fólk setji einfaldlega byrðina á einhvern annan. Fólk segir stundum hluti í líkingu við að það sé allt í lagi að hingað komi fólk svo framarlega sem það er eins og við. Það er allt í lagi að þetta fólk sé öðruvísi en bara ef það er einhvers staðar annars staðar. Þetta er ekki raunveruleiki sem við búum við í dag, hvort sem fólki líkar það betur eða verr.

Í þessu máli erum við að tala um börn, alla vega fólk sem er það ungt að það er nógu líkt börnum í útliti til þess að geta verið börn. Þá tel ég að það sé nógu ungt til þess að geta mótast af íslensku samfélagi með tímanum, betur en eldra fólk sem á erfiðara með að breyta háttum sínum og siðum. Þegar kemur að börnum ættum við ekki að láta útlendingaótta ráða för, heldur ættum við þvert á móti að sameinast um að gera okkar besta sem hlýtur að fela í sér að við látum það fólk njóta vafans sem segist vera börn þegar vafi leikur á því.

Mig langar og hefur langað til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra, og nú fer ég aðeins út fyrir efnið, virðulegi forseti, og biðst forláts á því, út í þessi mál og fleiri. Hins vegar er staða þess ráðherra og hvað varðar traust gagnvart þeim ráðherra á því stigi að mér finnst vandræðalegt að ræða við hana um annað en fílinn í herberginu, sem er Landsréttarmálið. Mér finnst þegar við förum að tala um önnur mál við ráðherrann eins og við séum að gleyma eða fyrirgefa eða því um líkt fyrir það mál, sem er ekki lokið og lýkur ekki fyrr en ráðherrann segir af sér.

Síðan er það líka það að komið hefur í ljós að ráðherra málaflokksins gerir það sem honum sýnist og er alveg sama þótt fram komi gagnrýnisraddir og er alveg sama þótt Hæstiréttur kveði svo á um að hæstv. dómsmálaráðherra brjóti lög. Það þýðir að ef ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra að einhverju þarf ég líka að spyrja hvort það sé samdóma álit sérfræðinganna sem vinna með ráðherra, eða hvort hún hafi spurt einhvern annan. Ég treysti því ekki og trúi ekki því sem hæstv. dómsmálaráðherra, sem er ráðherra málaflokksins, segir. Það er alveg sjálfstætt vandamál í stjórnsýslu okkar að við erum alltaf að sóa tíma í að eltast við svona. Minni ég á ágæta ræðu hv. varaþingmanns Olgu Margrétar Cilia sem benti á í pontu um daginn að stjórnmálamenn ættu að hætta að sóa tíma almennings og okkar allra í það að eltast við slík mál. Við eigum að geta farið út í þannig mál og rætt þau en málin eiga ekki að þvælast fyrir, sem þau gera.

Ég á mjög erfitt með það að fara út í alvöruumræður við hæstv. dómsmálaráðherra vegna þess að þetta máli þvælist alltaf fyrir, það er alltaf fyrir okkur. Það er sérstakt vandamál í málaflokknum.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti. Ég þakka aftur fyrir gott mál og lýk máli mínu á því að minna á að lögin eru gölluð þótt þau séu ný. Það þarf fleiri svona mál, það þarf að laga lögin meira þótt fólki geti fundist óþægilegt að fara út í svokallaðan bútasaum. Lögin mega þó eiga það að þau eru skýrari en þau sem fyrir voru, það er auðveldara að lesa þau og auðveldara að fletta hlutum upp í þeim en í lögunum sem fyrir voru. Það er jákvætt. Við eigum að nýta það og getum alveg nýtt það, enda sýnir þetta frumvarp vel fram á að það er alveg hægt að eiga við lögin án þess að fara út í heildarendurskoðun. Ég óttast að það tæki lengri tíma en það ætti að gera að laga lögin og gera þau raunverulega mannúðleg eins og ætlunin var.