148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

útlendingar.

42. mál
[12:24]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugann á málinu og stuðninginn við það, og líka fyrir hans pælingar um aldur. Ég held að við hljótum að deila því að það skipti ekki máli hvort maður er 12 ára eða 60 ára; þeir sem koma hingað til Íslands í leit eftir alþjóðlegri vernd eiga rétt á góðri og sanngjarnri málsmeðferð sem miðar við stöðu þeirra sem hingað koma.

Í andsvari við hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur hér áðan minntist ég á að ég hefði ekki mikla trú á aldursgreiningum á borð við tanngreiningar. Ég held einmitt, eins og hv. þingmaður minntist á undir lok ræðu sinnar, að þó svo að núgildandi lög um útlendinga séu góð og gild á sinn hátt séu aðstæður samt sem áður síbreytilegar og kalli á stöðuga endurskoðun á þeim lögum. Ég deili þeirri skoðun með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni að ég hef smákvíðahnút í maganum yfir því að endurskoðun á lögum um útlendinga taki of langan tíma. Ég vonast til þess að svo verði ekki. Þangað til verðum við kannski að sætta okkur við það að við þurfum að bæta þau lög sem eru í gildi núna.

Mig langar til að spyrja hvort hv. þingmaður deilir með mér sýn á aldursgreiningar á borð við tanngreiningar, hvort hv. þingmaður telji þær vera réttláta og sanngjarna aðferð til að mæla aldur þeirra hælisleitenda sem hingað koma í leit eftir alþjóðlegri vernd.