148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

brottnám líffæra.

22. mál
[13:46]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra. Þau eru, eins og komið hefur fram í máli flutningsmanna, orðin sæmilega þroskuð lög, farin að halla í þriðja áratuginn.

Ég vil þakka flutningsmönnum fyrir að sýna þá elju að flytja þetta mál aftur og aftur. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, þ.e. framboð á líffærum til líffæragjafa. Það er viðvarandi skortur á þeim, ekki aðeins á Íslandi heldur í rauninni úti um allan heim. Jafn sorglegt og það er er framboðið á líffærum venjulega mjög óvænt og oftast tengt harmleikjum sem fólk verður fyrir. Eins og flutningsmenn hafa komið ágætlega inn á er á þeim tímapunkti oft mjög erfitt að færa það í tal við eftirlifendur og aðstandendur hvað eigi eða megi gera næst. Þetta eru erfið mál. Ég þekki það sjálfur úr mínu starfi að þetta er ekki eitthvað sem menn geta gert af léttúð eða mikilli færni yfirleitt, vegna þess að þetta er svo sjaldgæft. Það er ekki það mikið um svona tilfelli.

Það eru mörg álitamál í málinu. Það eru svo sem til munstur annars staðar í heiminum sem menn hafa notað í sambandi við að reyna að kalla fram það sem við höfum venjulega kallað upplýst samþykki til líffæragjafa, m.a. hafa nokkur lönd, til að mynda flest fylki Bandaríkjanna, farið þá leið að spyrja um leið og menn fá ökuleyfi hvort þeir væru tilbúnir til að gefa líffæri ef eitthvað kæmi upp á. Það er að mörgu leyti ekkert óeðlilegt við það. Það er í slysum, eins og bílslysum, sem framboðsendinn á líffærum er hvað stærstur. Þetta er sú leið sem er farin þar. Þá er hreinlega merkt með litlu rauðu hjarta á ökuskírteini hvort hann eða hún er líffæragjafi.

Þetta er ein leið. Á Íslandi er það hins vegar þannig að við skilgreinum þá, alla vega flesta, sem fá ökuleyfi 17 ára sem börn. En það mætti hugsa sér að þegar þeir endurnýja ökuleyfið og fá varanlegt ökuleyfi 18 ára gamlir, eins og gert er ráð fyrir nú, mætti spyrja þeirrar spurningar, auðvitað á vandaðan hátt og þannig að fólk skildi um hvað verið væri að fjalla.

Það dregur hins vegar ekki úr mikilvægi þessa frumvarps. Það þýðir ekki að frumvarp eins og þetta gæti ekki engu að síður gengið fram. Þarna væri ein önnur leið til þess að, við skulum segja auðvelda samtalið við eftirlifendur og aðstandendur ef í mjög mörgum tilfellum lægi fyrir einhvers konar afstöðutaka til spurningarinnar.

Það er þannig almennt séð í allri heilbrigðisþjónustu og alls staðar þar sem við sinnum fólki í heilbrigðiskerfinu að almenna reglan er sú að fá upplýst samþykki fyrir því sem er gert. Stundum er það eðli málsins samkvæmt með tiltölulega óformlegum hætti en stundum, til að mynda þegar undir eru flóknar og miklar aðgerðir, skiptir verulegu máli að sá eða sú sem fer í læknismeðferð viti nákvæmlega um hvað þetta snýst. Það er í rauninni kennt í flestum heilbrigðisvísindagreinum, alla vega þeim sem ég þekki til, að sé eðlilega viðmiðið, reglan.

Án þess að ég ætli neitt að gefa mér um grundvöllinn að afstöðutöku læknaráðs eða Læknafélagsins í gegnum tíðina grunar mann að þessi bakgrunnsþekking þeirra á svipuðum málum hafi þar einhverju valdið.

Það eru vissulega líka fleiri algengir snertifletir við opinbera aðila þar sem hægt væri að spyrja að því sama eða finna leiðir til þess, en best er að hafa þetta einfalt. Það er hægt að velta því upp. Ég geri ráð fyrir að málið fari til velferðarnefndar og að þar muni menn koma inn á þau atriði.

Talað er í frumvarpinu um látinn einstakling. Þá er væntanlega rétt að fá fram hjá flutningsmönnum hvort átt er við látinn einstakling í þeim skilningi eða hvort hér sé átt við heiladauðan einstakling. Það þyrfti þá að skýra með einhverju móti í greinargerð með frumvarpinu. Það er svo að mesta veiðivonin í líffærum er þegar um er að ræða heiladauða einstaklinga og hefur tekist að halda a.m.k. hjartanu gangandi og líkamsstarfseminni að öðru leyti þangað til heimild fæst til að nýta líffærin.

Ég vil í lok máls míns þakka flutningsmönnum enn og aftur fyrir eljuna við að halda málinu lifandi og gangandi og vona innilega að við berum gæfu til að klára málið á þessu þingi.