148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

brottnám líffæra.

22. mál
[13:58]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Annað sem kom upp í máli hv. þingmanns var afstaða Læknafélagsins. Hv. þm. Willum Þór Þórsson kom einmitt líka inn á hana áðan og las upp umsögn Læknafélagsins þegar frumvarpið var lagt fram, að ég held á 143. þingi. Afstaða félagsins hefur verið fremur neikvæð gagnvart lagabreytingum. Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson útskýrir kannski aðeins nánar í hverju sú andstaða felst.

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni: Þegar málið var lagt fram á 143. þingi var landlæknir ekki búinn að setja upp þennan gagnagrunn. Hann kom síðar, í raun haustið 2014 ef ég man rétt. Ég held að hann hafi verið opnaður í nóvember það ár. Mig langaði til að velta þessu upp, vegna þess að afstaða Læknafélagsins, ef ég skildi þingmanninn rétt, byggist á því að sjúklingur sé upplýstur fyrst og síðast. Að því gefnu að upplýsing til almennings sé tryggð af hálfu stjórnvalda, eins og ég nefndi hér áðan, með útgáfu barnabóka, umræðu í grunnskólum, framhaldsskólum, auglýsingum og sérstöku tæki sem tryggir upplýsingagjöf til almennings, fjölmiðla o.fl. — það að þessi gagnagrunnur sé nú til staðar og virkur, er þingmaðurinn ekki sammála því að á þeim grunni megi líta svo á að almenningur í raun gefi upplýst samþykki? Sé þá meðvitaður um lagabreytinguna og hvað í þessu felst? Ég spyr hvort þingmaðurinn telji mögulegt að Læknafélagið muni mildast í afstöðu sinni á þessum forsendum, að það sé til gagnagrunnur og upplýsingagjöf til almennings sé tryggð.