148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

brottnám líffæra.

22. mál
[14:00]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú veit ég í sjálfu sér ekki hvort Læknafélagið er eitthvað sérstaklega til í að skipta um skoðun í þessu máli eða muni líta svo á að með aukinni upplýsingagjöf sé betri og meiri upplýsingagjöf til aðstandenda tryggð. Í siðfræðilegu spurningunni skiptir það kannski ekki heldur öllu máli vegna þess að það er ein af grundvallarreglunum, þegar einstaklingur hefur tekið ákvörðun um meðferð eða ekki-meðferð, að viðkomandi geti alltaf skipt um skoðun. Flutningsmenn frumvarpsins gera í raun ráð fyrir að aðstandendur geti í þessu tilfelli þá skipt um skoðun fyrir viðkomandi einstakling ef til kæmi. Þar sem það prinsipp er í raun alltaf haft í heiðri veit ég ekki hvort þetta atriði per se myndi breyta einhverju um afstöðu einhverra heilbrigðisstétta eða hópa úti í bæ.

Á hinn bóginn held ég að sú breyting sem er að verða, og þau tækifæri sem eru að verða í líffæragjöf, og hvernig við getum unnið með vefi úr framandi einstaklingum til lækninga og til að bæta lífsgæði, væri líklegri til að breyta þeirri hugsun eða afstöðu sem gæti birst frá heilbrigðisstéttum um hvernig við eigum að vinna þessi mál.