148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

brottnám líffæra.

22. mál
[14:05]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir ábendingu hans og útskýringu á því hvað hann telur mikilvægt að komi fram í greinargerð. Nú fer málið til hv. velferðarnefndar. Það er gott að vita að hv. þingmaður á einmitt sæti í hv. velferðarnefnd. Ég vona að þar sé hægt að taka mið af þessum ábendingum og vinna málið áfram og betrumbæta eftir því sem þarf.

Hv. þingmaður kom jafnframt inn á eitt í ræðu sinni. Ég ætla að nota tækifærið í seinna andsvari og spyrja hann um það sem oft er kallað upplýst samþykki, að við skráum með einhverjum hætti vilja okkar til að gefa líffæri. Hv. þingmaður nefndi það þegar við tökum ökupróf. Eru einhverjir fleiri möguleikar? Nú er það svo að hægt er að fara inn á vef landlæknis og skrá þar. Spyr hvort þetta ætti að vera einhvers staðar víðar. Það hafa komið fleiri hugmyndir fram, til að mynda á skattskýrslu þegar við göngum frá henni. Hvort fleiri möguleikar séu og hvort þetta ætti að vera víða ef við förum þá leið.