148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

Evrópuráðsþingið 2017.

86. mál
[14:10]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2017 og vil gjarnan hafa þann háttinn á í minni ræðu að fjalla aðeins almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið og fara örstutt yfir það sem bar hæst á vettvangi Evrópuráðsþingsins á síðasta ári. Svo held ég að fari vel á því, því mér sýnist að fráfarandi formaður Íslandsdeildarinnar, hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, sé búin að kveðja sér hljóðs og hún muni greina frekar frá þeim störfum sem Íslandsdeildin tók að sér og þeim málum sem hún flutti á vegum Evrópuráðsþingsins á síðasta ári.

En aðeins til þess að rifja upp þá er hlutverk Evrópuráðsins að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríki, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Í þeim tilgangi beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu og félagsmálasáttmála Evrópu.

Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga- og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa landfræðilega heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu.

Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 324 fulltrúar og jafn margir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Á þinginu starfa níu fastanefndir og sex flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október.

Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál. Síðasta ár á vettvangi Evrópuráðsþingsins, sem var nokkuð merkilegt fyrir margra hluta sakir eins og hér verður drepið á, bar hæst flóttamannavandann í Evrópu, spillingarmál á Evrópuráðsþinginu sjálfu og samskipti Rússa og Evrópuráðsþingsins. Í almennum umræðum var staða lýðræðisstofnana í Tyrklandi og deilur í Nagorno-Karabakh-héraðinu á milli Armena og Aserbaídsjana og Úkraínu einnig ofarlega á baugi.

Málefni flóttamanna voru til umræðu á öllum þingfundum ársins 2017. Í tilmælum þingsins um heildstæð viðbrögð við flóttamannastraumnum til Evrópu hvatti þingið aðildarlönd til að viðurkenna að fólksflutningar milli landa héldu áfram að aukast og að þeir væru grundvöllur fyrir endurnýjun og þróun Evrópu. Í ályktun um mannréttindi í ljósi viðbragða Evrópuríkja við fólksflutningum yfir Miðjarðarhafið kemur fram að í kjölfar samnings Evrópusambandsins við Tyrkland og lokunar landamæra hafi komum flóttafólks til Balkanskaga og Ungverjalands fækkað um 83%. Þessi aðgerð hafi hins vegar ekki haft áhrif á komu flóttafólks sjóleiðis frá Norður-Afríku. Þingið skoraði á ESB að hafa viðveru á Miðjarðarhafinu við leit og björgun, að herða aðgerðir sínar gegn fólkssmyglurum og að auka samstarf við líbísk stjórnvöld. Fjallað var um slæman aðbúnað flóttafólks á stærstu móttökustöðvum í Evrópu, á Ítalíu og Grikklandi, og Evrópuríki hvött til þess að axla í auknum mæli sameiginlega ábyrgð á móttöku flóttafólks. Talsvert var rætt um viðkvæma hópa flóttafólks, sérstaklega aðbúnað og öryggi fylgdarlausra barna.

Fréttir af spillingu þingmanna Evrópuráðsþingsins settu svip sinn á starf þingsins. Fregnir bárust af því á árinu að nokkrir þingmenn hefðu þegið mútur frá stjórnvöldum í Aserbaídsjan í tengslum við eftirlit með mannréttindamálum og kosningum þar í landi. Forseti Evrópuráðsþingsins, Pedro Agramunt, þingmaður landsdeildar Spánar, þótti ekki taka nógu hart á málum og var orðaður við spillingu sjálfur, en hann hefur gegnt kosningaeftirliti í Aserbaídsjan fyrir hönd þingsins. Á vormánuðum fór Agramunt svo í umdeilda ferð til Sýrlands með aðstoð Rússa og hitti Bashar al-Assad forseta. Í kjölfar Sýrlandsheimsóknarinnar lýstu flokkahópar á þinginu því yfir að forsetinn nyti ekki lengur trausts þeirra. Samkvæmt þingsköpum Evrópuráðsþingsins var hins vegar ekki hægt að leggja fram formlega vantrauststillögu til atkvæðagreiðslu. Framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins kom hins vegar saman á aprílfundinum og svipti Agramunt rétti sínum til að fara í opinberar heimsóknir fyrir hönd þingsins. Á þingfundi í júní var reglum þingsins breytt þannig að unnt er að setja forseta þingsins, varaforseta og formenn nefnda af í kjölfar vantrausts. Vantrauststillaga var lögð fram á sumarþingi en samkvæmt hinum nýju þingsköpum Evrópuráðsþingsins eru vantrauststillögur teknar á dagskrá á næsta þingfundi, nema yfirgnæfandi meiri hluti þingheims skrifi undir þær. Formleg vantrauststillaga var því á dagskrá fundarins í október en daginn áður en hún var tekin til umræðu sagði Agramunt af sér og gaf þá útskýringu að um heilsufarslegar ástæður væri að ræða. Stella Kyriakides, þingmaður landsdeildar Grikklands og meðlimur í flokkahópi íhaldsmanna, var kjörin forseti út árið 2017.

Líkt og síðustu ár var aðild Rússlands að átökunum í Úkraínu og stjórnmálaástandið á Krímskaga og Austur-Úkraínu ofarlega á blaði í störfum Evrópuráðsþingsins á síðasta ári. Til upprifjunar þá var landsdeild Rússlands í apríl 2014 svipt atkvæðisrétti í Evrópuráðsþinginu vegna aðkomu Rússlands að átökunum. Rússar hafa ekki skipað landsdeild síðan og hafa því ekki tekið þátt í störfum Evrópuráðsþingsins síðastliðin þrjú ár. Á októberfundi þingsins 2016 fordæmdi þingið enn og aftur aðkomu Rússlands að átökunum og ólöglega innlimun landsins á Krímskaga. Sumarið 2017 versnuðu samskipti Rússa og Evrópuþingsins enn þegar Rússar tilkynntu að þeir myndu ekki greiða framlög sín til Evrópuráðsins fyrr en landsdeild þeirra fengi skilyrðislausan atkvæðisrétt í Evrópuráðsþinginu. Rússar eru ein þeirra þjóða sem greiða hvað hæst fjárframlög til Evrópuráðsþingsins og Evrópuráðsins. Á haustþingi samþykkti þingið tilmæli þar sem kallað var eftir því að reglur ráðherranefndarinnar og Evrópuþingsins um þátttöku aðildarlanda Evrópuráðsins yrðu samræmdar. Tilmælin voru samþykkt með miklum meiri hluta en í kjölfarið tekist á um það hvort eigi að breyta reglum Evrópuráðsþingsins þannig að þinginu sé ekki fært að svipta landsdeild atkvæðisrétti sínum. Rússar myndu þá geta skipað nýja landsdeild án þess að eiga á hættu að missa atkvæðisréttinn.

Eins og þingmenn hér í salnum heyra er líf og fjör á vettvangi Evrópuráðsþingsins. Þess má geta, eins og ég kom að í inngangi, að þingfundir Evrópuráðsþingsins eru haldnir fjórum sinnum á ári en árið 2017 sótti Íslandsdeildin aðeins tvo þingfundi af fjórum vegna kosninga hér í október 2016 og svo aftur 28. október 2017.

Ég læt þetta gott heita í bili, forseti, enda held ég að fráfarandi formaður Íslandsdeildarinnar geti sagt okkur ýmislegt um þau málefni sem þingmenn deildarinnar komu á framfæri inni í þinginu, þau eru fjölmörg og mjög áhugaverð. Ég þakka fyrir.