148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

Evrópuráðsþingið 2017.

86. mál
[14:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og þessar ágætu skýrslur frá fráfarandi formanni, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, og hinum nýja ágæta formanni, Rósu Björk Brynjólfsdóttur. Ég sótti vetrarfund Evrópuráðsins sem varamaður. Ég vil byrja á að segja að við eigum þarna mjög skeleggar og góðar þingkonur sem eru fulltrúar í þessari nefnd og ég var mjög stoltur af þeirra verkum.

Þar sem ég kem að þessu sem nýr þingmaður langar mig aðeins að deila reynslu minni. Þetta er mjög áhugaverður vettvangur. Þarna eru þjóðþing 47 landa sem koma saman og það er hægt að gera þarna marga ágæta hluti. Mér fannst t.d. athyglisvert að á dagskránni eru málefni sem eru efst á baugi líðandi stundar ef svo má segja. Það var t.d. rætt um málefni Miðausturlanda, Ísraels og Palestínu. Sá sem hér stendur hafði tækifæri til að segja þar nokkur orð og fráfarandi formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, flutti þar mjög skelegga og góða ræðu. Þetta fannst mér áhugavert, að geta komið þarna með okkar sjónarmið á þennan vettvang með tiltölulega einföldum hætti.

Síðan er nefndarstarfið mjög áhugavert og margt í gangi, ályktanir og annað slíkt. Forsetar þjóðþinga heimsækja ráðið og það er hægt að koma með fyrirspurnir til þeirra, sem einnig er áhugaverður og góður vettvangur til orðaskipta. Þannig að ég segi fyrir mitt leyti að þetta er eitthvað sem við eigum að sinna vel. Þá vil ég taka undir það sem fráfarandi formaður og núverandi varaformaður sagði áðan, við hér erum kannski ekki nógu áhugasöm um það að mínu mati að taka þátt í þessu að fullu. Þá á ég við Alþingi. Það þarf að stuðla að því að þingmenn geti sótt þetta reglulega. Þá á ég við þennan fjárhagslega þátt í málinu. Það er mjög algengt að ríkin sendi einnig varafulltrúa sína á þingið. Það myndi náttúrlega gera að verkum að nefndin sem slík, Íslandsdeildin, yrði öflugri fyrir vikið. Þetta er mikil vinna. Það er löng dagskrá. Hún er alveg fram á kvöld flestalla dagana sem þingið er að störfum. Ef vel á að vera þurfa menn að sinna þessu vel. Eftir því sem fleiri koma að því verður starfið náttúrlega öflugra og betra. Nefndinni fylgdi öflugur nefndarritari, Bylgja Árnadóttir, sem var mjög gott að hafa og sinnti starfi sínu af miklum sóma.

Að lokum langar mig aðeins að minnast á mál sem bæði fráfarandi og núverandi formaður minntust á í sínum framsögum. Það varðar þátt Rússa innan ráðsins. Þetta er ákaflega viðkvæmt málefni, þ.e. að þeim skyldi hálfpartinn vera vísað út með þeim hætti að tekinn var af þeim atkvæðisréttur. Þeir brugðust að sjálfsögðu ekki vel við því. En ég tel mikilvægt að Rússar komi að ráðinu aftur. Það þarf að gera það með þeim hætti að báðir aðilar, þ.e. Evrópuráðið og Rússar sjálfir, nái eðlilegri lendingu í þeim efnum. Þetta er mikilvægt vegna þess að það hefur sýnt sig að þetta skiptir verulegu máli fyrir almenning í Rússlandi. Það eru mannréttindabrot þar eins og víða í þessari álfu og þá eru þessi úrræði til staðar, að vísa málum til mannréttindadómstólsins. Rússar hafa staðið við allar sínar skuldbindingar hvað það varðar. Þeir hafa greitt framlög sem tengjast því. Það er að sjálfsögðu eðlilegt og jákvætt að þeir geri það. Það skiptir ráðið líka fjárhagslegu máli að Rússar komi inn aftur, en auðvitað á það ekki að vera ástæðan fyrir því að fá þá þarna inn aftur. Það er miklu frekar að þeir eru nauðsynlegir inn á þennan vettvang vegna þess sem ég nefndi, við erum að fylgjast með mannréttindamálum í Rússlandi og það er mikilvægt af þeim sökum að hafa þá þarna inni. Ég vonast til þess að það náist einhver lending með þetta en vissulega eru skoðanir mjög skiptar. Úkraínumenn eru t.d. alfarið á móti því að þeir komi þarna inn. Þeir vilja meina, í þeim samtölum sem ég átti við úkraínska þingmenn, að Rússarnir hafi nú töluverð áhrif þarna á bak við tjöldin. Ég þekki það nú ekki en skiljanlega eru þeir ekki sáttir við þá. Við þekkjum þá umræðu alla.

En þetta skiptir máli. Það eru ákveðin vandamál sem tengjast því að Rússar eru ekki þarna inni. Ég nefndi fjárhagsmálin en auk þeirra höfum við Tyrki sem hafa greitt meira en þeim ber til ráðsins og þeir hafa ákveðið að falla frá því. Auðvitað eru þetta mál sem þarf að leysa með góðum hætti.

Að lokum vil ég lýsa ánægju með þennan fund og þennan vettvang. Vonandi getum við látið til okkar taka með meiri og afgerandi hætti innan ráðsins í framtíðinni.