148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

Evrópuráðsþingið 2017.

86. mál
[14:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég ákvað að fara að ágætum ráðum hæstv. forseta og taka aftur til máls. Ég var hins vegar ekki alveg viss um hvort það tækist í fyrri ræðu minni. Ég taldi mig hafa nægan tíma til að fara yfir þessa ágætu skýrslu og einnig ræða um þá hluti sem mér finnst bera hvað hæst á Evrópuráðsþinginu og vera hvað mikilvægastir. Ég sé hins vegar að ég hef alls ekki það langan tíma og hvet ég fólk einfaldlega til að kynna sér skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið í fyrra því að þar kemur ýmislegt mjög áhugavert fram um störf nefndanna.

Mig langaði rétt í lokin að ræða um ákveðinn nefndarfund og nefndarstarf sem ég hef verið í á vegum Evrópuráðsþingsins en þar hef ég verið að störfum fyrir laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins og hef unnið þar að ákveðnu áliti. Það var um skýrslu laga- og mannréttindanefndar um saksókn og refsingu fyrir glæpi gegn mannkyni og þjóðarmorð framin af samtökum sem kenna sig við íslamskt ríki. Skýrslan var lögð fyrir á októberfundi Evrópuráðsþingsins en þar sem við vorum í miðjum kosningaslag komst ég ekki til að mæla fyrir henni.

Annað áhugavert sem gerðist í nefndarstarfi laga- og mannréttindanefndarinnar var þegar formaður nefndarinnar kynnti skýrslu sem sá hinn sami hafði samið um Aserbaídsjan og mannréttindatilburði þess á árunum 2012–2014. Einmitt sama dag og hann ætlaði að kynna þessa skýrslu, þ.e. kvöldið áður, kom út grein í tímaritinu The Guardian sem útlistaði hvernig asersk stjórnvöld hefðu greitt háar fúlgur fjár í gegnum skúffu- og aflandsfyrirtæki til þess að múta þingmönnum Evrópuráðsþingsins til að fjalla á jákvæðan hátt um mannréttindaumsvif Aserbaídsjan á árunum 2012–2014. Formaður nefndarinnar, sem var framsögumaður þessa álits, ætlaði sér ekkert að minnast á þessi umsvif Aserbaídsjana á þessu sama tímabili og skýrslan náði yfir og náði sú sem hér stendur að bæta inn eins og einni lítilli breytingartillögu, sem var samþykkt með minnsta mögulega meiri hluta, og var það æsispennandi atburðarás.

Þetta varð þó til þess að ýmsir rannsóknarblaðamenn fóru að skoða Alain Destexhe, eins og hann heitir, formaður laga- og mannréttindanefndarinnar, og skýrslugjafi í þessu máli. Kom þá ekki á daginn að sá hinn sami átti lítið skúffufyrirtæki heima hjá sér sem var ákveðið lobbýistafyrirtæki fyrir Aserbaídsjan. Þar sem Destexhe hafði ekki lýst yfir neinum konflikt eða hagsmunaárekstrum þegar hann tók við þessari skýrslu axlaði hann pólitíska ábyrgð og sagði af sér.

Ég vildi benda á þessa skemmtilegu eða áhugaverðu atburðarás.

Loks langar mig að minna á það sem minn ágæti kollegi, hv. þm. Birgir Þórarinsson, var að tala um, þ.e. að Rússar eru að reyna að beita fjárkúgunum til að fá aftur atkvæðisrétt til þingsins. Mig langar að hvetja alla hér inni til að styðja við bakið á Evrópuráðsþinginu og öðrum þjóðum sem hafa hugsað sér að greiða meira í þetta merka ráð til þess að við getum haldið okkar gildum og án þess að láta undan fjárkúgunartilburðum þeirra sem ekki vilja fara eftir okkar gildum.

Loks langar mig aðeins að minnast á að laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins mun koma og heimsækja okkur, þ.e. ef allt fer að óskum. Ef þingið hefur efni á, eftir þessa tilburði alla sem hafa verið í gangi, þá mun laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins koma og sækja okkur heim í lok maí. Ég hvet alla þingmenn til að hafa augun opin fyrir því. Ég hugsa að það gæti orðið ansi áhugaverður fundur. Hluti hans verður opinn almenningi og almennum þingmönnum. Ég vildi bara minna á það hér í lokin og þakka öllum þeim sem hafa fylgt mér í gegnum mína formennsku fyrir góða samvinnu og óska nýjum formanni velfarnaðar í sínum störfum.