148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

ársreikningar og hlutafélög.

12. mál
[14:41]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Þetta er í rauninni safnlagafrumvarp, eða svokallaður bandormur, þar sem lögð er fram tillaga til breytingar á tvennum lögum, annars vegar um ársreikninga og hins vegar um hlutafélög. Tillagan í frumvarpinu er einföld, að engin gjaldtaka skuli vera fyrir rafræna uppflettingu í skránni og skuli allar upplýsingar birtast í rafrænni uppflettingu.

Þetta frumvarp var einnig lagt fram á 147. löggjafarþingi en komst ekki til umræðu, enda var það mjög stutt.

Með frumvarpinu er lagt til að upplýsingar ársreikningaskrár og hluthafaskrár verði aðgengilegri fyrir almenning. Lagt er til að ekki skuli taka gjald fyrir rafræna uppflettingu í skrám þessum og, sem er mikilvægt, að sömu upplýsingar skuli vera aðgengilegar þar og ef greitt væri fyrir eintak af gögnum úr skránni. Þessar upplýsingar geta ekki talist aðgengilegar almenningi miðað við núverandi löggjöf þar sem greiða þarf fyrir þær.

Frumvarp til laga sambærilegt þessu er varðaði aukinn aðgang að fyrirtækjaskrá var samþykkt á Alþingi á 146. löggjafarþingi og varð að lögum. Lögin fólu í sér að veita almenningi aðgang að fyrirtækjaskrá án gjaldtöku. Hér er lagt til að gögn sem tengjast þeim sem er að finna í fyrirtækjaskrá verði gerð aðgengileg á sama hátt.

Í meirihlutaáliti fyrirtækjaskrármálsins er farið yfir kostnað og tekjur sem ríkisskattstjóri hefur af fyrirtækjaskrá. Þar eru þær sagðar vera rétt tæpar 40 milljón kr. árið 2016. Af gjaldskrá ríkisskattstjóra að dæma verður ekki séð að sérstaklega sé rukkað fyrir ársreikningaskrá eða hlutafélagaskrá heldur virðist rukkað fyrir þau gögn í gegnum fyrirtækjaskrá. Kostnaðurinn er því ekki mikill.

Umsagnaraðilar við fyrirtækjaskrármálið voru m.a. félagasamtökin Gagnsæi sem röktu mikilvægi þess fyrir almannahagsmuni, akademíska greiningu og fjölmiðlun að þessi gögn væru aðgengileg, enda var ein ástæða breytingar á lögum sem lögð var fram um fyrirtækjaskrá að fréttir sem hefðu getað breytt ýmsu í samfélagsumræðunni urðu einfaldlega ekki til því að uppfletting í fyrirtækjaskrá og tengdum fyrirtækjum í gegnum ársreikningaskrá og hluthafaskrá kostaði kannski 50 þús. kr. Það var of hár verðmiði fyrir eina frétt af því að búið var að búa til svo mikla fyrirtækjafléttu inni í fyrirtækjaskrá. Við klárum núna ferlið sem við hófum á fyrirtækjaskrá, sem gefur aðgengi að því hverjir eru stjórnarmenn o.s.frv. og fleiri gögnum hvað það varðar, breytingum á stjórn, gjaldkerum og því um líku og samþykktum félaga, með því að opna á nákvæmlega sama hátt og Alþingi samþykkti áður með öllum greiddum atkvæðum fyrir ársreikningaskrá og hlutafélagaskrá.

Ég býst við að málið fái meðbyr sökum fyrri afgreiðslu Alþingis á sambærilegu máli. Ég hlakka til að sjá það fljúga í gegn.