148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

rafræn fasteignaviðskipti og ástandsskýrslur fasteigna.

13. mál
[14:58]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er ekki viss um að ég sé tilbúinn að hafa fullan skilning á svarinu eða kaupa það alveg í fyrsta umgangi af því að mér finnst hugmyndin og tillagan og margt þarna hljóma vel við fyrsta lestur. Ég tek það fram að auðvitað á tillagan eftir að fá umfjöllun í nefnd og maður þarf að kynna sér hana betur.

Ég hygg þó að það sé rétt hjá hv. þingmanni að þessir liðir geti stutt hvor annan eins og þeir eru settir fram, eins og hv. þingmaður benti á varðandi ástandsskýrsluna og viðhaldsdagbókina. Það hlýtur að vera eitthvert samræmi þar á milli.

Ég er enn þá svolítið fastur í fyrstu vangaveltunum varðandi c-lið af því að mér finnst hann vera býsna athyglisverður og hugmyndin góð í útfærslu. En það má ekki snúast upp í andhverfu sína, að fólk fari mögulega — ég segi mögulega — að skrá viðhald sem ekki stenst. Mögulega er þá hægt að sjá það á milli ástandsskýrslna. En ég mun fylgjast með málinu af áhuga. Ég tel að það sé margt mjög gott í því.