148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

trygging gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.

14. mál
[15:20]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir andsvarið. Þetta er góð ábending. Ég held að ég svari henni þannig að þegar við leggjum af stað í einhver verkefni, hvað sem við ætlum að taka okkur fyrir hendur, skilgreinum við með einhverjum hætti hvað það er sem við ætlum að fara að gera og hvaða kröfur það á að standast. Það er ekki altækt en í þessu samhengi felast gæði í því að það sé gert sem að er stefnt. Með þessu er verið að benda á að hafa ferli sem tryggir að sett markmið náist. Um leið þýðir þetta að það sem gert er sé eins gott, hagkvæmt og skilvirkt og hægt er miðað við það sem ákveðið er.

Ég gerði Noreg dálítið mikið að umtalsefni í þessu samhengi. Það er rétt að taka fram að tillagan í sjálfu sér felur ekki í sér að við tökum upp norska kerfið. Ég vil að við lítum víðar og skoðum meira. En til dæmis er regluverk Norðmanna mjög ítarlegt um þessi atriði, um hvað menn eru að eiga við í þessu samhengi. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er viðfangsefni annars vegar löggjafans eða fjármálaráðuneytisins að huga að og síðan þessa samráðsvettvangs þar sem menn eru þá að ræða um alla þessa hluti. Þar geta menn sett sér skýrari reglur um það eða hugmyndir um hvað (Forseti hringir.) þessi hugtök þýða nákvæmlega.