148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

18. mál
[15:36]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli hér með fyrir þingsályktunartillögu um notkun og ræktun lyfjahamps.

Með þingsályktun þessari er ráðherra falið að semja frumvarp sem ráði bót á núverandi lagaumhverfi með því að heimila notkun og ræktun lyfjahamps. Við undirbúning frumvarpsins er mikilvægt að gætt verði allra þeirra þátta sem skipta sköpum við stefnubreytingu sem þessa. Reynsla nágrannaþjóða af setningu reglna um notkun lyfjahamps, eða það sem kallast erlendis „medical marijuana“, með leyfi forseta, er rík og því mikilvægt að ráðherra nýti reynslu þeirra þjóða þar sem vel hefur tekist til. Nauðsynlegt er að með frumvarpi ráðherra verði tryggt að ræktun og dreifing verði örugg og að þeim aðilum sem hafi hana með höndum, sem og sjúklingum, verði ekki refsað.

Lyfjahampur er heiti yfir kannabis eða hampjurt sem notuð er í læknisfræðilegum tilgangi. Notkun hampjurtarinnar sem lyfs á sér langa sögu auk þess sem hampjurtin hefur margvíslegt annað notagildi. Á síðastliðnum árum og áratugum hafa verið gerðar fjölmargar rannsóknir á læknisfræðilegum áhrifum lyfjahamps og ábata fyrir sjúklinga af notkun hans. Rannsóknir þessar hafa sýnt fram á að lyfjahampur hefur raunverulegt notagildi, m.a. í meðferð gegn krabbameini, taugasjúkdómum og öðrum alvarlegum sjúkdómum.

Vímuefnalöggjöf á Íslandi hefur að mestu leyti haldist óbreytt undanfarna áratugi, fyrir utan einstaka hækkanir á refsiramma. Þar sem ljóst er að löggjöf víðs vegar um heiminn færist nú í átt að afnámi á þeirri bannstefnu sem hefur verið meginreglan í vímuefnalöggjöf, er vert að skoða hvaða skref væri rétt að stíga hér á landi og hvaða úrbóta er þörf.

Í því samhengi mætti líta til nýlegra vísindarannsókna og reynslu nágrannalanda okkar af setningu reglna um slík efni, bæði vegna notkunar sem lyfs og til almennrar notkunar. Meðal þeirra ríkja sem nú hafa heimilað notkun lyfjahamps eru Austurríki, Belgía, Kanada, Grikkland, Tékkland, Síle, Úrúgvæ, Kólumbía, Finnland, Þýskaland, Ísrael, Ítalía, Holland og Spánn, auk hluta Ástralíu og Bandaríkjanna. Fleiri lönd munu bætast við því að þetta virðist vera stefnan í heiminum.

Á Íslandi er staðan sú að notkun hampjurtarinnar er ólögleg. Ekki getur sú flokkun efnisins talist rétt þegar viðurkennt hefur verið að mögulegt notagildi þess sem lyfs er mun meira en ef það væri flokkað sem ávana- og fíkniefni. Þá kemur núverandi flokkun í veg fyrir að hæfir aðilar geti nýtt jurtina til rannsókna.

Núverandi lagaumhverfi kemur því í veg fyrir að sjúklingar sem notið gætu góðs af meðferðareiginleikum lyfjahamps geti nálgast efnið á lögmætan og öruggan hátt. Í sumum tilfellum mætti jafnvel halda því fram að staða lyfjahamps sem ólöglegs efnis gangi gegn ákvæðum laga um réttindi sjúklinga til þess að fá bestu mögulegu meðferð og heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Í ljósi þess að fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á notagildi lyfjahamps í meðferðarskyni er full ástæða til þess að setja reglur um notkun hans, sjúklingum til heilla.

Í febrúar árið 2010 kynntu vísindamenn frá kannabisrannsóknarmiðstöðinni í háskólanum í Kaliforníu niðurstöður úr rannsóknum sínum um heilsufarslegan ábata af notkun jurtarinnar. Við gerð rannsóknarinnar var stuðst við staðla bandaríska lyfjaeftirlitsins, en niðurstöður hennar sýndu fram á að lyfjahampur væri ákjósanlegt fyrsta meðferðarúrræði fyrir sjúklinga sem þjást af taugakvillum og öðrum alvarlegum sjúkdómum.

Nokkrar rannsóknir á vegum miðstöðvarinnar mældu áhrif plöntunnar á taugaverki, verki í tengslum við krabbamein, sykursýki, HIV/alnæmi, mænuskaða og marga aðra örkumlandi sjúkdóma. Þessar rannsóknir benda allar til þess að hampjurtin dragi úr sársauka, jafn vel eða betur en þau lyf sem notuð eru í dag.

Í ýmsum öðrum rannsóknum sjálfstætt starfandi lækna og vísindamanna hafa einnig verið könnuð áhrif hampjurtarinnar á mismunandi sjúkdóma og læknisfræðileg virkni hennar. Þar á meðal má benda á rannsókn Shaheen E. Lakhan og Marie Rowland sem birtist í tímaritinu BMC Neurology í desember 2009. Rannsóknin sýndi fram á að notkun hampjurtarinnar fyrir sjúklinga sem þjáðust af MS dró úr neikvæðum áhrifum sjúkdómsins. Þá hafa sambærilegar rannsóknir sýnt fram á notagildi hampjurtarinnar við að draga úr einkennum mígrenis, en rannsókn þess efnis birtist í bandaríska tímaritinu Headache: The Journal of Head and Face Pain, í maí 2015.

Þegar kemur að vísindarannsóknum á notagildi hampjurtarinnar eru samantektarrannsóknir einna mikilvægastar, þ.e. rannsóknir þar sem skoðaður er mikill fjöldi annarra rannsókna og niðurstöður þeirra greindar til að gefa heildstæða mynd af þeim vísindalegu gögnum sem liggja fyrir. Grein um slíka rannsókn, gerð af Lauru M. Borgelt, Kari L. Franson, Abraham M. Nussbaum og George S. Wang, birtist árið 2013 í Pharmacotherapy-tímaritinu undir heitinu, með leyfi forseta, „The Pharmacologic and Clinical Effects of Medical Cannabis“. Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að hampjurtin hefði óumdeilanlegt læknisfræðilegt gildi en að í lagaumhverfi þar sem notkun jurtarinnar er óheimil og refsiverð væri erfitt að fylgjast með og mæla áhrif af notkun hennar.

Forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ráðherra verði falið að undirbúa og leggja fram frumvarp að lögum sem heimili notkun og ræktun lyfjahamps. Með því er stigið fyrsta skrefið að setningu reglna um lyfjahamp. Nauðsynlegt er að breyting sem þessi sé vel ígrunduð og er margra mismunandi lagabreytinga þörf. Þess vegna er ráðherra falið að semja það frumvarp sem lagt skuli fram. Fjölmargar þjóðir hafa þegar stigið þau skref sem hér er fjallað um. Nauðsynlegt er fyrir íslensk stjórnvöld að taka mið af og mark á þeim framförum sem orðið hafa í málaflokki þessum. Það getur ekki talist í takt við framfarir þær sem nú eiga sér stað í hinum vestræna heimi að árið 2018 sé enn verið að refsa sjúklingum sem kjósa sér þessa meðferðarleið.

Nauðsynlegt er að í stjórnarfrumvarpi ráðherra verði að finna breytingu á 6. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni. Þá mun ráðherra þurfa að setja reglugerð á grundvelli laganna sem setur stjórnvaldsfyrirmæli um hvernig notkun og ræktun skuli háttað. Setning slíkra reglna ein og sér er ekki svo flókin að til þess þurfi langan undirbúningstíma en þó svo að rétt er að ráðherra heilbrigðismála og ráðuneyti hans undirbúi lagafrumvarpið.

Þessi þingsályktunartillaga er fyrst og fremst hugsuð til að koma til móts við þá aðila í samfélaginu sem kalla eftir þessu úrræði. Það er ljóst að fólk nýtir sér nú þegar þetta lyf til lækninga. Veikt fólk í samfélaginu notar þetta lyf ólöglega. Það er ekki til góðs að við séum að gera veikt fólk að glæpamönnum í samfélaginu þegar það er svo augljóst að í þeim löndum, eins og t.d. Ísrael þar sem þetta hefur verið leyft í mörg ár, og Ísraelar eru mjög framarlega í rannsóknum á kannabis til lækninga, hefur komið í ljós að þetta hjálpar fólki. Kannabis, lyfjahampur er mun skaðlausari en önnur lyf sem við notum og hætta á misnotkun er lítil í samanburði við þau læknalyf sem við notum í dag, til dæmis ópíóíða sem eru hættulegir og fólk deyr af vegna ofneyslu. Það ber að skoða í takti við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur. Í raun og veru þarf að skoða það líka með hliðsjón af afglæpavæðingu, sem er stefna sem mörg lönd í kringum okkur hafa tekið upp, þar sem við hættum að refsa neytendum eða notendum lyfja og förum í staðinn að huga að heilbrigði þeirra og hvernig við getum hjálpað þeim að ná sér af þessum fíknisjúkdómum.