148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

18. mál
[15:45]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Þessi þingsályktunartillaga Pírata vekur upp ýmsar spurningar. Öll viljum við sjúklingum vel. Það er staðreynd að sumir þeirra geta nýtt sér kannabis í lækningaskyni, um það eru engar deilur. Þingsályktunartillagan snýst um að leyfa bæði notkun og framleiðslu hamps í lækningaskyni. Þá vaknar eiginlega spurningin: Hver er hin raunverulega þörf? Það er ekki gerð nein grein fyrir annarri hugsanlegri þörf í þingsályktunartillögunni en að nefndir eru ákveðnir sjúkdómar sem þetta hefur gagnast við. Það er aðallega fjallað um rannsóknir á notagildi í greinargerðinni og nefnd 15–20 ríki sem leyfa notkun. Ég legg áherslu á orðið notkun. Það eru mannmörg ríki og maður spyr sig sjálfan hvort notkunin þar byggi á því að lyfjahampur sé framleiddur þar líka.

Snúum okkur þá hingað í smáríkið og fámennið. Það væri mjög áhugavert að fá á hreint, hvort sem væri í einhverri sérstakri rannsókn eða hjá flutningsmönnum, hver raunveruleg þörf er fyrir lyfjahamp á Íslandi og hvers vegna það er þá tengt saman við ræktun líka. Spurningin er einfaldlega sú hvort innflutningur þessa efnis geti ekki dugað. Ef við leyfum á annað borð notkunina gæti það verið einboðið.

Ég giska á að sjúklingar sækist fyrst og fremst eftir áhrifum virka efnisins sem er oft kallað THC og veit fyrir víst að það er hættulegt efni, mjög hættulegt, í langtímanotkun. Rannsóknir hafa líka sýnt fram á það, en þetta hefur gagnast sjúklingum og því sjálfsagt að skoða hvort ekki skuli leyft að nota efnið hér.

Ef notkun er þá leyfð, eins og ég sagði áðan, væri unnt að flytja inn lyfjahamp í nægum gæðum, hvort sem það er kannabisolía, hampur til að reykja eða annað, í lækningaskyni. Ég skoðaði vefinn og sá að það eru til hylki þar sem búið er að einangra aðalvirku efnin í kannabis, lyf sem heitir dronabinol og er notað t.d. í Bandaríkjunum, Kanada, Þýskalandi og Nýja-Sjálandi. Þegar skoðaður er í heild sinni möguleiki á að flytja inn lækningahamp í nægum mæli má spyrja hvort ekki sé einföld lausn á þessu máli. Mælir nokkuð á móti því að sleppa ræktunarleyfinu en styðja við innflutning og notkun?