148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

18. mál
[15:51]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók svo sem ekki afstöðu til þingsályktunartillögunnar, svo það sé nú á hreinu. En ég var búinn að lesa þetta um notkunarsviðið í Ísrael, eða hvar það nú var. Auðvitað höfum við marga sjúklinga ef við förum að skoða þessi notkunarsvið en þetta tengist auðvitað líka vilja manna til að nota þetta. Það er ekki sjálfgefið að þetta sé stór hópur.

Annað, varðandi heimaræktun lyfja. Ég veit ekki um nein önnur lyf sem eru ræktuð heima. Ég tel alveg einboðið að þetta lyf eins og önnur ætti auðvitað að vera undir lyfjaeftirliti, hvort það er sala eða ræktun eða framleiðsla. Ég get ekki fallist á að það sé einhver sérstakur plús að menn geti ræktað þetta heima í gluggakistu hjá sér.

Aðalmálið er þetta: Það þarf að sjá fyrir þörfina og sjá fyrir hvort hér sé ekki alveg eins gott í lækningaskyni að nota framleiðsluvörur þar sem búið er að þjappa saman þessu virka efni í einhvers konar hylki eða olíur eða annað slíkt og láta þar við sitja. Því það er stórt skref að fara að leyfa kannabisræktun á Íslandi, hvort sem er til einhvers ákveðins brúks eða ekki. Ég tel því betra að fara varlega og sjá heldur til þess að þetta sé til reiðu á annan máta en úr eigin ræktun sjúklinga.