148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

18. mál
[15:53]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það þurfi að fara varlega. Ég skil að fólk er með mismunandi skoðanir á því að geta ræktað sitt eigið lyf heima hjá sér. Það er bara eitthvað sem er alveg til umræðu og mögulega er einhver staður sem heilbrigðisráðherra mun draga línuna á. En þá er bara spurning hver eigi að rækta þetta, hvort við eigum að flytja þetta inn eða rækta þetta yfir höfuð. Þetta er allt til umræðu.

Varðandi THC-magnið í kannabis, það er eitthvað sem hægt er með reglum að stjórna, hversu mikið THC-magn er í kannabisplöntunni. Svo er alveg til umræðu hvort við eigum hreinlega bara að vera að nota CBD-lyf sem er engin víma í en hefur samt sýnt mjög góðar niðurstöður fyrir fólk með taugasjúkdóma, að nota bara CBD-olíuna og hreinlega rækta THC úr. Allir þessir hlutir eru því til umræðu. Tilgangurinn með þessari þingsályktunartillögu er einmitt að koma þessari umræðu í gang.

Hvort fólk noti þetta eða ekki, það kemur líka bara að því hvernig læknar líta á þetta. Þegar við lögleiðum, hvaða leið? Munu læknar vilja ávísa þessu? Munum við sjá notagildi í þessu eða ekki? Ef ekki, gott og vel. En alla vega að þetta sé valkostur fyrir fólk, fólk sem stríðir við mjög alvarlega sjúkdóma, að það hafi það val að geta notað lyfjahamp í staðinn fyrir einhver önnur sterkari og erfiðari lyf. Ef þetta hjálpar því finnst mér sjálfsagt að við leyfum fólki að hafa þetta val. Hvers vegna ekki? Hvað er því til fyrirstöðu?