148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

18. mál
[16:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég býð mig fram til að rökræða vísindalegu hliðarnar á þessu máli meira við hv. þingmann á öðrum vettvangi en í pontu. Ég held hvorki að við höfum hér tíma til þess né reyndar að það sé mikið tilefni til þess út frá ræðu hv. þingmanns þar sem hann fjallaði aðallega um skaðsemi kannabisefna. Það er rétt að kannabisefnum fylgja ýmsar hættur. Ég veit ekki um neinn sem gerir neinn ágreining um það. Það felast líka hættur í því að nota morfín og concerta. Það felast hættur í því að nota alls konar lyf.

Þessi tillaga, þetta er ekki einu sinni frumvarp, snýst ekki um að heimila heimaræktun, almenna neyslu eða neitt því um líkt. Tillagan snýst um að búa til lagaumgjörð til að þessi planta verði notuð til lækninga, þá væntanlega af læknum. Eins og hv. þingmaður vonandi veit, ég geri ráð fyrir því, er þetta umdeilt eins og margt annað í vísindunum.

Þetta er ekkert alveg endanlega komið á hreint. Hv. þm. Halldóra Mogensen taldi upp þó nokkurn fjölda landa þar sem sú leið hefur verið farin að nota lyfjahamp í einhverju magni. Kannabisefni sem er vissulega vímuefni og getur haft skaðlegar afleiðingar þýðir ekki að það sé gagnslaust í læknisfræðilegum tilgangi. Það hljóta allir að sjá alveg skýrt.

Mig langar að hafa á hreinu að hér er ekki verið að tala um að heimila almenna neyslu, heimaræktun eða neitt því um líkt. Ef ég skil hv. þingmann rétt hefur hann áhyggjur af því að fólk noti meira af kannabisefnum ef þessi tillaga verður samþykkt og því langar mig að spyrja hann: Hvernig ætti það að gerast? Kannabisefni eru sennilega eitt einfaldasta vímuefni í heiminum í framleiðslu. Þetta er illgresi, maður setur það í blómapott og gefur því vatn og ljós og fær kannabisefni. Þetta er ekkert miklu flóknara en það. Væntanlega gæfu margir frekari heilræði ef markmiðið væri að gera það sterkt.

Ég sé ekki að samþykkt þessarar tillögu muni (Forseti hringir.) auka framboð á kannabisefnum. Það er eftirspurnarhliðin sem við höfum þurft að eltast við í baráttunni gegn neikvæðum afleiðingum vímuefna. (Forseti hringir.) Ég verð að koma restinni af punktunum mínum að í seinna andsvari.