148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

18. mál
[16:14]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson spurði mig einnar lítillar spurningar í lok andsvars síns, hvernig hægt sé að halda því fram að það að leyfa þetta muni auka neysluna. Það er kannski bara svo einfalt að hundruð rannsókna, til að mynda á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, liggja því til grundvallar að bætt aðgengi að vímuefnum alls staðar þar sem sú tilraun, skulum við segja, hefur verið gerð eykur neysluna. Þessi tillaga fjallar um að bæta aðgengi að efninu. Það er það sem við þurfum að ræða.

Kannabis er líklega ekki gagnslaust, ég undirstrika líklega. Það er líklega ekki gagnslaust við meðhöndlun verkja og ýmissa einkenna við a.m.k. nokkrum taugasjúkdómum. Við þessum sömu einkennum og sömu sjúkdómum eru hins vegar til önnur lyf sem eru gagnreynd með miklu nákvæmari hætti en nokkurn tíma kannabisefni. Þess vegna tel ég að við eigum að stíga mjög varlega til jarðar í þessu efni.

Í grundvallaratriðum held ég að það sem við þurfum að horfa á sé hvað þeir fræðimenn eða heilbrigðisstarfsmenn á þessu sviði, sem fást við þá einstaklinga sem eiga við erfiðleika að stríða vegna neyslu þessara lyfja, eru að segja okkur í þessum efnum. Enginn þeirra mælir með því að við losum (Forseti hringir.) tökin á þeim lögum og reglugerðum sem þegar eru í gildi.