148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

18. mál
[16:19]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni varð tíðrætt um að á kannabis væri litið sem lyf í samhengi þessarar tillögu. Við skulum í smástund segja bara: Ókei, það er þannig.

Það hefur verið grundvallarhugsun mjög víða í heiminum þar sem menn velta fyrir sér hvort eigi að taka ný lyf á skrá hvort lyfin hafi eitthvað að bjóða umfram þau lyf sem þegar eru á markaði, hvort þau séu jafn góð eða bæti einhverju við þá verkun sem kann að vera fyrir. Nú veit hv. þingmaður vafalítið að það er pínulítill gluggi einhvers staðar fyrir notkun kannabisefna í lækningalegum tilgangi þar sem við höfum ekki fundið önnur efni. Þeir sjúklingar fá í dag þessi lyf á undanþágu. Hv. þingmaður veit það væntanlega. Þeir sjúklingar geta nálgast lyfin með þeim leyfum. Ég sé ekki að við eigum að fara að opna meira á notkun þessara lyfja. Eftir stendur að í sárafáum tilvikum eru ábendingar fyrir kannabis umfram önnur lyf sem til eru við sömu ábendingum.

Þingmaðurinn nefndi einnig morfínlíku lyfin og hvað okkur hefði gengið illa að stemma stigu við notkun þeirra. (HHG: Nei, vel.) Hvað okkur hefði gengið vel að stemma stigu við notkun morflínlíkra lyfja? (Gripið fram í.) Já, ég held að það sé ekki rétt, að okkur hafi nú ekki gengið vel að gera það. Ég held einmitt að reynslan af erfiðleikunum við að stemma stigu við notkun morfínlíkra lyfja (Forseti hringir.) muni ekki batna neitt þó að við leyfum eitt vímuefnið í viðbót.