148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

19. mál
[16:21]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég hef lítinn tíma áður en ég þarf að ná í krakka í leikskóla þannig að ég ætla að fara fljótt yfir sögu. Með frumvarpinu er verið að breyta lögum um þingfararkaup alþingismanna, 4. gr. laganna fellur brott, mjög einfalt. Þá falli brott ákvæði sem mælir fyrir um rétt alþingismanna til leyfis frá opinberu starfi sem hann gegnir í allt að fimm ár og tryggingu á sambærilegu starfi hjá hinu opinbera í fimm ár eftir það, afsali hann sér starfinu. Ekki er gert ráð fyrir því að alþingismaður geti gegnt starfi hjá ríki eða ríkisstofnun með þingmennsku og notið launa fyrir það starf.

Að okkar mati eru þetta ekkert endilega réttindi heldur forréttindi. Þannig er engin ástæða til að hygla opinberum starfsmönnum umfram öðrum og því er lagt til að lagagreinin falli brott.

Þegar lögin voru sett þá var fyrri málsgreinin tekin úr eldri lögum frá 1968 þar sem talað er um að eðlilegt þyki að alþingismaður geti fengið leyfi frá störfum fram á annað kjörtímabil sitt, þ.e. að hann verði að sleppa starfinu ef hann er kosinn á Alþingi í annað sinn. Og sanngjarnt þyki að þingmaður sem þannig verður að velja á milli opinbers starfs og þingmennsku hafi tryggingu fyrir hliðstæðu starfi hjá hinu opinbera í nokkurn tíma, eða fimm ár, ef hann afsalar sér því starfi sem hann er skipaður eða ráðinn í.

Skipanir og ráðningar í opinber störf eru allt öðruvísi núna. Það er minna um lengri ráðningar eða lengri skipanir og þær eru flestar til fimm ára. Og hæstaréttardómarar hafa til dæmis ekki einu sinni kjörgengi til Alþingis.

Síðari málsgreinin er hins vegar úr núgildandi lögum, er samhljóða gildandi ákvæðum um launagreiðslur til alþingismanna — hún var í eldri lögum fyrirgefið: Þá kom til greina að fella niður ákvæði þessarar málsgreinar þar sem fátítt er orðið að þingmenn gegni öðrum störfum fyrir hið opinbera en horfið var frá því. Það er um að gera að taka það upp núna 23 árum seinna eða eitthvað svoleiðis. Það er orðið enn sjaldgæfara. Þetta mál þarf ekki að vera flóknara en það.

Ég var til dæmis í opinberu starfi áður en ég byrjaði sem þingmaður. Ég vil endilega minnka forréttindi mín hvað þetta varðar. Við erum með alveg nóg af þeim.