148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

19. mál
[16:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ákvað að kveðja mér hljóðs í kjölfar samskipta tveggja hv. þingmanna sem töluðu á undan mér. Ég er meðflutningsmaður á þessu máli. Mér er afskaplega annt um að gera rétt, mér er afskaplega annt um að lögin séu sanngjörn. Það er þess vegna sem ég er meðflutningsmaður að þessu máli. Ef fram koma einhver rök sem gera að verkum að mér hættir að finnast þetta frumvarp sanngjarnt þá skipti ég um skoðun eins og ég geri frekar reglulega — geri það algerlega með köldu blóði án þess að skammast mín nokkuð fyrir það.

Ég hef hins vegar ekki heyrt nein rök fyrir því að þetta ætti að vera eins og þetta er. Það sem við erum að tala um er 4. gr. laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað.

Ég fletti upp frumvarpinu sem gerði það að lögum og fletti upp athugasemdum um 4. gr. þess frumvarps. Ég finn einfaldlega engan viðunandi rökstuðning. Það er einfaldlega fullyrt að það sé á einhvern hátt sanngjarnt að opinberir starfsmenn hafi þann rétt að geta gengið að starfinu vísu í fimm ár eftir að þeir taka sæti, hafi forgang í fimm ár eftir það, sum sé alls um tíu ár. Það er einfaldlega fullyrt að þetta sé á einhvern hátt sanngjarnt og vísað í hluti sem ég sé ekki að rökstyðji að þannig sé það.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé sem talaði hér áðan, í andsvörum við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, að við viljum að sem flestir geti boðið sig fram til Alþingis. Mér finnst hins vegar persónulega að það eigi að vera jafnræði þar og sem mest jafnræði. Ég skil engan veginn af hverju opinberir starfsmenn ættu að hafa þennan rétt umfram fólk sem er á almenna vinnumarkaðnum. Enn fremur sé ég ekki, frekar en hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, hvernig hægt væri að láta þessa reglu gilda fyrir almenna markaðinn. Ég sé ekki betur en það gangi einungis fyrir opinbera markaðinn vegna þess að það er opinberi markaðurinn sem er að mestu fjármagnaður með skattfé og þar eru stofnanir sem vissulega hafa burði til að standa undir þessari kvöð. Að sama skapi átta ég mig ekki á því hvers vegna þessi kvöð ætti að vera til staðar. Það er þess vegna sem ég er hlynntur því að hún falli brott.

Ef frekari rök koma fyrir því að þetta fyrirkomulag í 4. gr. þessara laga sé á einhvern hátt rökrétt eða sanngjarnt þá er ég allur eitt eyra, eins og maður segir á hörmulegri íslensku, en ég hef bara ekki heyrt þau rök.

Mig langar að nefna í leiðinni að það er fleira sem mætti alveg laga í þessum lagabálki. Ég ætla ekki að fara út í það, en þetta er ekki eina lýtið á þessum lögum sem ég sé. Mér hefur sýnst að í gegnum tíðina hafi alþingismenn kannski leyft sér skrýtna tegund af metnaði, stundum hefur mér fundist það. Ég nefni sem dæmi þegar ákveðið var að formenn stjórnarandstöðuflokka, eða formenn flokka sem ekki sitja í ríkisstjórn, fengju 50% álag, eitthvað sem við í Pírötum höfum ávallt hafnað, enda erum við ekki með formann nema að forminu til. Svo erum við reyndar með formann FR-nefndar, það er öðruvísi tegund af formanni.

Að öllu jöfnu finnst mér mikilvægt að jafnræði sé í samfélaginu, jafnræði fyrir lögum og að fólk hafi jafnan rétt og þar á meðal rétt til að bjóða sig fram til Alþingis. Ég velti því fyrir mér, kannski meira sem spurningu út í kosmosið, eins og er sagt nú til dags: Hvað ef maður ætlaði að bjóða sig fram til Alþingis, mundi einhverjum detta í hug að sækja fyrst um vinnu, bara einhverja vinnu, hjá hinu opinbera, og bjóða sig síðan fram til Alþingis svona til þess að hafa einhverja leið út?

Það er annað í þessu. Það er þekkt á Íslandi, eða mér er alla vega sagt það, að það sé frekar erfitt fyrir fyrrverandi þingmenn að fá vinnu eða geti verið erfitt, sér í lagi ef þeir eru mjög áberandi í umræðunni. Þeir þurfa ekkert að vera óvinsælir til þess. Bara það að vera áberandi stjórnmálamaður með skoðanir á samfélaginu getur gert þingmönnum erfitt að fá vinnu að þingstörfum loknum. Mér er sagt að þetta sé akkúrat öfugt í flestum öðrum löndum. Þar sé það reiknað til tekna og þyki gott að hafa þetta á starfsferlinum. En ekki hér. Ég átta mig ekki á því hvers vegna þetta er. Það eina sem mig grunar er að það sé vegna þess að fólk sé feimið við að hafa starfsmann sem viðskiptavinur fer að gefa sér einhverjar fyrir fram mótaðar skoðanir um, sem eiga svo kannski ekki við rök að styðjast eða koma starfseminni ekkert við. Ég veit það ekki alveg. Reyndar hef ég rannsakað sérstaklega sannleiksgildi þessarar kenningar.

Ég verð að segja fyrir mig að ef við ætlum að fara að hugsa um þessi mál út frá jafnræðisgrundvelli finnst mér að við ættum frekar að líta í hina áttina eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé nefndi hér áðan. Ég sé ekki hvernig það er mögulegt. Aftur — ég er allur eitt eyra á þessari hörmulegu íslensku — en ég bara heyri ekki rök fyrir því að hafa þetta öðruvísi en lagt er til í frumvarpinu.