148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

23. mál
[16:36]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Það er mál sem tengist jafnréttisstefnu lífeyrissjóða.

Hér er um að ræða mál sem allur þingflokkur Viðreisnar stendur að, auk meðflutningsmanna: Helga Hrafns Gunnarssonar, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, Björns Levís Gunnarssonar, Helgu Völu Helgadóttur, Andrésar Inga Jónssonar, Guðmundar Andra Thorssonar, Guðjóns S. Brjánssonar, Halldóru Mogensen og Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur. Ég nefni þetta til að árétta að hér er um að ræða mál með ansi víðtækan stuðning, um það er samstaða meðal þingmanna úr fimm þingflokkum.

Breytingin sem lögð er til er í stórum dráttum tvíþætt. Við 1. mgr. 36. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Lífeyrissjóður skal setja sér jafnréttisstefnu er nái til fjárfestinga sjóðsins. 36. gr. fjallar almennt um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða þar sem tilgreind eru nokkur atriði sem lífeyrissjóðir skuli hafa í huga, þar með talið að hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi og að þeir setji sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum, svo fátt eitt sé nefnt. Því tengt er lagt til að við 2. mgr. 41. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: framkvæmd jafnréttisstefnu sjóðsins. 41. gr. tekur til skýrslu stjórnar. Er þar átt við að þar komi, samhliða yfirliti um starfsemi sjóðsins á árinu og öðrum upplýsingum, jafnframt upplýsingar um hvernig lífeyrissjóðirnir hafi staðið að framkvæmd þessarar jafnréttisstefnu.

Áhrif lífeyrissjóða í íslensku viðskiptalífi eru veruleg, enda eru sjóðirnir umsvifamestu aðilar á íslenskum fjármálamarkaði nú um stundir. Þeir eru 25 talsins samkvæmt yfirliti Fjármálaeftirlitsins um eftirlitsskylda aðila. Eignir þeirra í lok september síðastliðið haust námu 3.760 milljörðum kr. samkvæmt hagtölum Seðlabankans. Lífeyrissjóðirnir halda á stórum hluta skuldabréfa og skráðra hlutabréfa, annaðhvort beint eða óbeint í gegnum sjóði sem þeir hafa fjárfest í. Þeir hafa fjárfest mikið í óskráðum eignum og sækja einnig á í útlánum til fasteignakaupa, eins og þekkt er.

Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sem hér er vísað í, og starfsemi lífeyrissjóða er öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur og/eða sjálfstæða starfsemi skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði. Lífeyrissjóðunum er þannig falið að fara með almannafé og hafa þar af leiðandi samfélagslegu hlutverki að gegna. Það hlutverk endurspeglast m.a. í umræddri 36. gr. laganna sem kveður á um að lífeyrissjóður skuli hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi og setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum.

Með frumvarpi þessu er lagt til að hnykkt verði á samfélagslegu hlutverki lífeyrissjóða að því er varðar jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna í samfélaginu með því að kveða á um að sjóðirnir skuli setja sér jafnréttisstefnu sem nái til fjárfestinga viðkomandi sjóða. Að sama skapi skuli þess getið í ársskýrslu sjóðanna hvernig framkvæmd jafnréttisstefnunnar hafi gengið, hvernig fjárfestingar sjóðanna samræmist slíkri stefnu. Þannig beri lífeyrissjóðum samkvæmt þessu að skýra sérstaklega forsendur þess að fjárfest er í fyrirtækjum þar sem kynjahalli er verulegur meðal æðstu stjórnenda, svo dæmi sé tekið.

Í raun ætti slík stefna að vera sjálfsögð og eðlileg í ljósi þess hlutverks sem lífeyrissjóðir gegna í samfélaginu enda sýna fjölmargar rannsóknir fram á að fyrirtækjum þar sem jafnvægi er í kynjahlutföllum í stjórn og framkvæmdastjórn vegnar almennt betur. Þetta ætti þannig að falla undir samfélagslega ábyrgð sjóðanna sem nefnd hefur verið. Í ljósi stöðunnar í íslensku viðskiptalífi þykir hins vegar rétt að mæla sérstaklega fyrir um þessa skyldu lífeyrissjóðanna með lögum.

Herra forseti. Þó að margt hafi áunnist í jafnréttismálum hér á landi er eins og ákveðin svið samfélagsins séu svolítið sér á báti. Dæmi um það er fjármálageirinn. Tölurnar eru sláandi, ríflega 90% þeirra sem stýra peningum hér á landi eru karlar. Í þeim hópi skera síðan lífeyrissjóðirnir sig úr, ekki frá því hlutfalli heldur að því leyti að þeir tilheyra öllum almenningi. Það verða allir að greiða í lífeyrissjóð af launum sínum, karlar jafnt sem konur. Lífeyrissjóðirnir hafa því, svo ég árétti það, samfélagslegu hlutverki að gegna. Þeir sýsla með peningana okkar. Þeir eru gríðarlega umsvifamiklir í viðskiptalífinu, í fjárfestingum sínum. Með frumvarpinu er lagt til að lífeyrissjóðirnir axli þannig ábyrgð þegar kemur að framgangi jafnréttis í samfélaginu því að þannig sinna þeir samfélagslegri skyldu sinni á sem bestan hátt og því hlutverki sem þeim er ætlað að gegna í samfélaginu.

Því er lagt til að þessi samfélagslega skylda sé lögfest þannig að lífeyrissjóðum sé gert að setja sér jafnréttisstefnu sem nái til fjárfestinga þeirra. Reyndin er sú, eins og ég sagði áðan, að rannsóknir sýna að þeim fyrirtækjum sem búin eru fjölbreyttum stjórnendahópi, m.a. með tilliti til kynjaskiptingar, vegnar betur. Það ætti að vera okkur sjálfsagt mál, kappsmál, í ljósi þess að sjóðunum er ætlað að hámarka afkomu fjárfestinga sinna, að litið sé til jafnréttissjónarmiða. Sú hefur einfaldlega ekki verið raunin. Því er rökrétt og mikilvægt næsta skref að lögfesta þessa skyldu.

Ákvæðið um jafnréttisskylduna, sem kveðið er á um í 1. gr. þessa frumvarps, er hins vegar ekki nóg. Það þarf að ríkja gegnsæi um hvernig hún er framkvæmd. Þess vegna er líka hnykkt á því og lagt til að lífeyrissjóðunum verði lögum samkvæmt skylt að gera grein fyrir því í ársskýrslunni hvernig jafnréttisstefnan er framkvæmd. Þannig myndu sjóðirnir t.d. þurfa að útskýra hvers vegna fjárfest er í fyrirtækjum sem uppfylla ekki jafnréttisviðmið. Mér finnst mikilvægt að fram komi að hér er um það að ræða að lögfesta skyldur sjóðanna til að rökstyðja val sitt og ákvarðanir, en ekki inngrip í ákvarðanirnar sem slíkar að öðru leyti. Það getur því varla kallast stórkostlegt inngrip í rekstur sjóðanna eða takmarkanir á frelsi þeirra heldur er það einfaldlega eðlileg krafa af hálfu eigenda sjóðanna og þeirra sem hagsmuni eiga að gæta að valið, ákvarðanir og aðgerðir séu rökstudd.

Það er skylda stjórnmálanna að vera vakandi yfir því hvernig megi breyta og bæta kerfi almenningi til góðs. Við eigum ekki að láta tiltekin svið samfélagsins þar undanskilin. Við eigum ekki láta líða að tiltekin svið samfélagsins festist í kynbundinni misskiptingu.

Herra forseti. Ég vona að þetta mál fái skjótan framgang.