148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

23. mál
[16:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna og tækifærið til að fá að vera einn af meðflutningsmönnum þessa ágæta máls. Mig langar að velta því upp hvort við eigum að líta á þetta sem eitt skref í þá átt að lífeyrissjóðir séu allir til góðs í samfélaginu, að sá mikli auður sem þar hvílir, sem er sameign okkar flestra í landinu, sem höfum greitt inn í lífeyrissjóðina, nýtist samfélaginu til heilla.

Mér detta í hug orðaskipti sem ég átti við þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Jóhannesson, um siðferðisviðmið í fjárfestingum lífeyrissjóða hér á síðasta ári. Þá fannst mér dálítið óþægilegt að verða þess var hve hið opinbera hafði litlar upplýsingar um inntak og eðli fjárfestinga lífeyrissjóðanna. Það voru dálítið þunn svörin sem komu úr ráðuneytinu vegna þess að lífeyrissjóðirnir væru einkaaðilar sem ráðuneytið gæti ekki dregið upplýsingar út úr.

Þess vegna þykir mér mjög til bóta þessi tillaga í því frumvarpi sem við ræðum hér um að skýrt sé kveðið á um miðlun upplýsinga um jafnréttisstefnu og fjárfestingar í samræmi við hana. Ég velti fyrir mér hvort við ættum kannski að fella inn ákvæði um það að fjárfestingar skuli uppfylla siðferðisleg viðmið, hvort það eigi líka heima í þessum ársskýrslum alveg eins og það að fjárfestingar standist jafnréttisstefnu.