148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

23. mál
[16:46]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega andsvarið og jafnframt velvild hans í garð þessa frumvarps sem hann er meðflutningsmaður á. Þetta er áhugaverður punktur. Ég get svarað því til að þegar við vorum að skoða þetta þá lá beint við að við vildum fá ákvæði um jafnréttissjónarmið inn í 36. gr. sem fjallar um fjárfestingastefnu lífeyrissjóðanna. Þar litum við til 5. gr. en þar undir er talað um að lífeyrissjóður setji sér siðferðisleg viðmið.

Síðan fórum við að hugsa að það eitt og sér væri ekki nóg. Við vildum fá þetta inn í skýrsluna líka, að menn upplýstu þar hvernig þeir hegðuðu sér og rökstyddu það. Ég átta mig á því að sumum þykir orðalagið ekki gott þar, tala um að þrengt sé að rekstri. Ég er til í rökræðu um það allan daginn að ekki sé verið að þrengja að rekstri með því að uppfylla þetta ákvæði, en það er einfaldlega þannig að stundum lendir maður í rökræðum um það. Það er ekki verið að gera það öðruvísi en svo að menn hljóta að geta rökstutt þær ákvarðanir sem þeir taka þegar þeir sýsla með jafn stóran hluta af almannafé og raun ber vitni.

Það er ástæðan fyrir því að við vildum fá þetta inn í skýrsluna líka. Mér finnst það allrar umræðu virði að skoða hvort þessi siðferðislegu viðmið, sem rætt er um í fjárfestingarstefnu, geti skilað sér inn í skýrslugjöfina, hvernig menn hafi sinnt því. Ég ímynda mér, án þess að vita það, að hv. þingmaður sé þar mögulega að líta til hvernig Norðmenn hafa sýslað með sína opinberu sjóði, þau viðmið sem eru sett þar, takmarkanir og annað. Mér finnst þetta allrar umræðu virði. Ég get ekki sagt annað. Ég væri til í að taka hana áfram.