148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

23. mál
[16:50]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þessi orð og vil líka árétta að við höfum sem betur fer, íslensk þjóð, borið gæfu til að byggja upp lífeyrissjóðakerfið okkar. Í því liggur a.m.k. eitt af fjöreggjum okkar, ég tala nú ekki um mikilvægi þessa kerfis þegar þjóðin eldist, sem gerist nú á næstu árum. Við verðum þjóð meðal þjóða í því tilliti.

Ég tek hjartanlega undir það að þessi viðmið varðandi siðferði, umhverfisvernd og aðra slíka þætti verða sífellt ríkari í huga okkar. Lífeyrissjóðirnir okkar hljóta að koma þar sterkt inn og við sterk inn sem eigendur þessara sjóða með áhrif í þá átt.

Hv. þingmaður nefnir hér væntanlegan sjóð sem ég hlakka til að heyra meira af. Hann verður vonandi með svipaðar áherslur, en ég bind miklar vonir við að þessi mál nái fram að ganga, þetta frumvarp, þessar lagabreytingar. Mögulega getur það þá orðið fyrsta skrefið í því að einhver reynsla komi á hlutina og þessi mál komist í eitthvert horf. En hvað varðar upphaflega hugmynd, um þessi siðferðislegu viðmið, þá held ég að það sé umræða sem er mjög þarft að taka og óþarfi að bíða nokkuð með hana.