148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

sjúkratryggingar.

25. mál
[17:15]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur framsöguna. Ég játa að ég hef ekki tekið þátt í umræðum um þetta frumvarp áður, mig rekur ekki minni til þess, en það hefur verið lagt fram nokkrum sinnum og ég sit ekki í hv. velferðarnefnd. Ég ætla bara að vera heiðarlegur og segja að mér finnst margt hér vera mjög áhugavert. Ég hygg að ég og hv. þingmaður séum að miklu leyti sammála um markmiðin sem koma fram í greinargerð. Núverandi ríkisstjórn hyggst fara í mikla eflingu í heilbrigðiskerfinu. Allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu óháð efnahag og búsetu. Efla á heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað, móta á heildstæða heilbrigðisstefnu og draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga, þannig að ég held að markmiðin ríkisstjórnarinnar og í frumvarpinu geti farið saman.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í eina setningu í greinargerðinni þar sem ég tiltók með markmið núverandi ríkisstjórnar væri öll að finna í stjórnarsáttmálanum. Hæstv. heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir hefur komið nokkrum sinnum í pontu og rætt hugmyndir sínar innan þeirra takmarkana sem stuttar umræður hér hafa þó gefið.

Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Að undanförnu hefur komið fram að stefna ríkisstjórnarinnar er að færa sífellt meira af grunnstoðum velferðarkerfisins í einkarekstur.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað í stefnu núverandi ríkisstjórnar gefur tilefni til að sú setning sé þar inni? Eða eru þetta leifar af því þegar þetta frumvarp var lagt fram áður?