148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

sjúkratryggingar.

25. mál
[17:17]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan er frumvarpið nú lagt fram í fjórða skipti. Væntanlega hefur hv. þingmaður tekið eftir því að þetta sagði ég ekki þegar ég flutti ræðu mína áðan. Þá sagði ég að mat flutningsmannanna væri að ekki yrði við unað að færa sífellt meira af grunnstoðum velferðarkerfisins í einkarekstur. En á síðasta ári voru þrjár heilsugæslustöðvar settar í einkarekstur. Þegar ég var að endurskoða greinargerðina og undirbúa flutninginn hér að nýju hefur mér yfirsést það. Ég vona að einkarekstur verði ekki aukinn hér á meðan hæstv. heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir er í heilbrigðisráðuneytinu. Við höfum yfirleitt verið sammála um hvernig haga eigi þessum málum. Það er ljóst að snúa þarf til baka.

Það er ekki nóg að mínu áliti að segja bara: Nú ætlum við að stoppa og við ætlum ekki að fara úr í aukinn einkarekstur, við ætlum að snúa þróuninni við. Eins og staðan er núna er hún farin að skaða Landspítalann og þá þjónustu, þetta sambland af einkarekstri og starfi sérfræðinga á spítalanum. Það er ekki nægilega gott vegna þess að við þurfum að gæta að hag sjúklinga.

Þetta frumvarp gengur ekki svo langt að segja það, heldur segir það: Alþingismenn verða að fá að skipta sér af því hvernig rekstrarformið er vegna þess að það hefur áhrif á þjónustuna.