148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

mótun fjármálakerfisins og sala Arion banka.

[15:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli mínu áðan var hv. þingmaður forsætisráðherra þegar stöðugleikasamkomulag var gert og glugginn var skilinn eftir opinn fyrir vogunarsjóðina að koma inn í Arion banka. Þá var samið um forkaupsréttinn, sem hv. þingmaður spyr hér um. Við fórum ítarlega yfir það í minni tíð í stjórnarandstöðu og hv. þingmanns á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar þar sem niðurstaðan var að sá forkaupsréttur væri ekki til staðar í ljósi þeirra viðskipta sem þá áttu sér stað hvað varðar vogunarsjóðina.

Þegar kemur að sölu á hlut ríkisins í Arion banka þá hefur engin ákvörðun verið tekin um hana. En ég vitnaði hér til þess að í stjórnarsáttmála kemur fram að eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er hvergi meira en í Evrópu. Þó að hv. þingmaður myndi vilja hafa það 100% eftir því sem lýst hefur verið hér. Það stendur ekki vilji til þess hjá ríkisstjórninni að auka það eignarhald heldur draga úr því eignarhaldi, en að ríkið eigi áfram einn banka á markaði eins og kemur fram í stjórnarsáttmála.

Hv. þingmaður getur ekki kvartað undan stefnuleysi. Ég myndi halda að þetta væri nokkuð skýrt. Og það að taka þessi mál til dýpri umræðu á vettvangi þingsins hefði ég haldið að væri mjög jákvætt, bæði fyrir þingið og fjármálakerfið.