148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

stefna og hlutverk sendiráða Íslands.

[15:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Fyrirkomulag utanríkisþjónustunnar er í höndum hæstv. utanríkisráðherra og hann getur væntanlega svarað spurningum hv. þingmanns með greinarbetri hætti en sú sem hér stendur. Þegar ég sat hins vegar síðast í ríkisstjórn, á árunum 2009–2013, tók ég þátt í því að stofna Íslandsstofu sem snýst einmitt um það að auka samstarf ólíkra hagsmunaaðila í samfélaginu og stjórnvalda um utanríkisviðskipti. Það var verkefni þeirrar ríkisstjórnar sem ég sat í þá.

Það þarf ekki að koma hv. þingmanni á óvart að ég sé fylgismaður þess að við eigum mjög gott samráð við aðila í atvinnulífi og líka aðila í menningarlífi, aðila hér og þar í samfélaginu þegar kemur að því að efla samskipti Íslands við önnur ríki.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt á það áherslu í stefnu sinni að eiga mjög gott samstarf við atvinnulífið þegar kemur að utanríkisviðskiptum. Mér finnst það í sjálfu sér eðlilegt. Við eigum þessa stofnun, Íslandsstofu, sem raunar stendur til að fara yfir fyrirkomulagið á. Ég held að það sé sjálfgefið. Ég lít ekki svo á að þar sé verið að fela einkaaðilum framkvæmd utanríkisstefnunnar. Ég tel ekki að þetta mál snúist um það.

Hins vegar er það svo, eins og hv. þingmaður er mér örugglega sammála um, að til að mynda þegar kemur að þeim geira sem ég þekki best, menningargeiranum, þar sem við höfum náð gríðarlegum strandhöggum á undanförnum árum, hefur mestu skipt að hafa þá sem eru starfandi í menningunni við borðið þegar ákvarðanir hafa verið teknar um að styrkja tengslin á menningarsviðinu. Hv. þingmaður þekkir það ekki síður vel sem fyrrverandi ráðherra þess málaflokks.

Samstarf? Já. En það er ekki verið að fela ákvörðunarvald neinum öðrum en utanríkisráðuneytinu.