148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

stefna og hlutverk sendiráða Íslands.

[15:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er afskaplega ánægð með þetta svar hæstv. forsætisráðherra. Ég deili því með henni að það skiptir máli að leita til og treysta sér til að leita til einkaaðila, hvort sem er á sviði menningar, menntamála, utanríkisviðskipta eða annars staðar. Við eigum ekki að vera hrædd við að fara í samstarf við einkaaðila og fela þeim verkefni sem hið opinbera hefur fram til þessa séð um, a.m.k. að hluta til. Ég fagna þessu svari hæstv. forsætisráðherra.

Ég verð satt best að segja að segja að ég var örlítið smeyk við myndun þessarar ríkisstjórnar af því að það var merkjanlegt að í ákveðnum köflum stjórnarsáttmálans var verið að ýta öllu því til sem hét einkarekstur í menntakerfinu. Það er t.d. spurning um viðhorf ríkisstjórnarinnar til menntakerfisins og reksturs þeirra aðila sem reka m.a. grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla þar sem einkaaðilar koma að, eins og Háskólann í Reykjavík.

Ég tel þetta fagnaðarefni. Hér segir forsætisráðherra: Já, við getum leitað til einkaaðila varðandi viss verkefni, við útilokum þau ekki (Forseti hringir.) á neinum sviðum, hvort sem er á sviði menningar, utanríkisþjónustu eða annars staðar. (Forseti hringir.) Meginmálið er að þjóna samfélaginu og gera Ísland sterkara. Það gerum við ekki með einhverri kreddupólitík.