148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

hækkun fasteignamats.

[15:17]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Fregnir hafa borist af því að ákveðin hafi verið hækkun á fasteignamati. Ég er hérna með Viðskiptablaðið frá því í dag. Þar kemur fram að fasteignamat hækkar um 13,8% almennt talað, en að verðmat sumarbústaða hækki um 38,7%. Eins og fram kemur á heimasíðu Fasteignamats er tilgangur fasteignamats fyrst og fremst, með leyfi forseta, að skapa grundvöll:

„… fyrir álagningu opinberra gjalda en fasteignamatið er stofn fasteignagjalda og erfðafjárskatts.“

Þetta er mikilvæg skattlagning fyrir sveitarfélögin sem byggist á því frá ári til árs hver verði niðurstaða stofnunar úti í bæ sem ég dreg ekki á nokkurn hátt í efa að vinni sín störf af mestu samviskusemi en það er alveg ljóst í fyrsta lagi að 13,8% hækkun á fasteignagjöldum kemur illa við fasteignaeigendur, ekki síst þá sem ekki búa við einhverjar ofurtekjur. Við getum litið á viðkvæma hópa eins og til að mynda lífeyrisþega, ekki hafa bætur þeirra hækkað neitt í líkingu við þetta.

Það er mikill ágalli á þessari tekjuöflun sveitarfélaganna að hún er algerlega úr tengslum við tekjur gjaldenda. Ef við tölum sérstaklega um sumarhúsin er þessi skattlagning úr öllu sambandi, ekki bara við tekjur gjaldenda heldur sömuleiðis úr öllu sambandi við þá þjónustu sem sveitarfélögin veita eigendum frístundahúsa.

Spurning mín til sveitarstjórnarráðherra er þess vegna eftirfarandi: (Forseti hringir.) Geta eigendur fasteigna átt von á því að eiga skjól í honum? Mun hann beita sér fyrir raunhæfum breytingum í þessum efnum?