148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

hækkun fasteignamats.

[15:20]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða fyrirspurn. Ef maður skoðar hækkun á fasteignamatinu yfir landið hækkar það sem betur fer víðar en á höfuðborgarsvæðinu. Eins og þingmaðurinn veit er fasteignamatið ákvarðað á grundvelli markaðslögmálanna, þ.e. af sölu og kaupum á markaði á viðkomandi eignum á viðkomandi svæðum. Það er ljóst samkvæmt því að á síðasta ári hefur markaðsverð á sumarhúsum greinilega rokið upp.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að sveitarfélögin nota þennan skattstofn. Við setjum lögin um þau. Við setjum reyndar ákveðin viðmið fyrir sveitarfélögin þar sem þau geta verið innan ákveðins bils. Það er í höndum þeirra hvort þau nýta skattstofninn að fullu, þau hafa ákvörðunarvaldið. Þegar um miklar hækkanir er að ræða skoða sveitarfélögin í mörgum tilvikum hvort til álita komi að lækka álagningarprósentuna.

En ég held að í öllum tilvikum megi segja að sveitarfélögin leggi sig fram um að veita þá þjónustu sem þetta gjald á að standa undir. Þó að það geti verið mismunandi eftir sveitarfélögum og aðstæðum held ég að ég megi fullyrða að sveitarfélögin séu sannarlega að reyna það. Þó getur sjálfsagt verið umdeilt hvort það er nægjanlegt eður ei.

Stóra málið er þetta: Við erum með þessa löggjöf, hún þýðir að oft hækkar fasteignamatið umtalsvert meira en menn vilja. Eignirnar hafa þó vaxið í verði, menn eiga meira. En á móti þurfa þeir að borga meira af því til sveitarfélagsins nema sveitarfélagið lækki hjá sér álagningarprósentuna.