148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

lögbann á fréttaflutning.

[15:25]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Lögbann sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti í aðdraganda síðustu kosninga að beiðni Glitnis á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media um fjármálaumsvif þáverandi forsætisráðherra, núverandi hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, var aðför að fjölmiðlafrelsi hér á landi. Þessu lögbanni var hafnað af héraðsdómi í síðustu viku. Um þetta segir forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, Ragnhildur Helgadóttir, í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins, með leyfi forseta:

„Það er náttúrlega í raun og veru alveg hrikalegt mál að það geti komið upp lögbann á umræðu sem skiptir máli fyrir stjórnmálaumræðuna tíu dögum fyrir kosningar og staðið enn þá þremur mánuðum síðar. Það á ekki að geta gerst.“

Jón Ólafsson, formaður Gagnsæis, félags gegn spillingu, sem skipaður hefur verið af hæstv. forsætisráðherra formaður nefndar til að efla traust á stjórnmálum, skrifar í Kjarnann um sama mál og kallar aðgerðir sýslumanns, með leyfi forseta, „ógnun við réttarríkið“.

Af þessu tilefni langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún sé sammála þeirri sýn á aðgerðir sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu sem kemur fram í orðum þessara tveggja virtu fræðimanna.