148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

lögbann á fréttaflutning.

[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil gefa mér tíma til að fara yfir það frumvarp og mun leggja til að sá hópur sem verður skipaður — þar sem verða fulltrúar forsætisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis, sem fer með málefni fjölmiðla, ásamt aðilum sérfróðum á sviði tjáningarfrelsis — skoði það frumvarp sem liggur fyrir þinginu. Ég hef ekki lúslesið það, svo að ég viðurkenni það, þótt ég þekki stóru línurnar í frumvarpinu sem hv. þingmaður nefnir. Ég hef lagt það til að þessi hópur muni skila af sér fyrstu frumvörpum sínum 1. október 2018 en lokaskil hans á frekari vinnu verði 1. mars 2019.

Ég vonast til þess að við munum sjá breytingar á þessum lögum og annarri þeirri löggjöf sem lýtur að uppljóstrunarskyldu og þagnarskyldu opinberra starfsmanna, svo að ég nefni mál sem hefur verið töluvert til skoðunar, en líka endurskoðun á upplýsingalögunum. Ég mun fara yfir það frumvarp sem hér liggur fyrir og óska eftir því að þessi hópur geri það líka.