148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

hugsanlegt vanhæfi dómara.

[15:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ólögmæt skipun dómara getur leitt til þess að dómar hans verði ómerktir, eins og var í nýlegum dómi Evrópudómstólsins. Það þýðir að réttaróvissa ríkir varðandi þá dóma sem þeir dómarar sem hafa á ólögmætan hátt verið skipaðir í dóm kveða upp; það er réttaróvissa um alla þeirra dóma í framtíðinni. Nú strax hefur Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður lagt fram kröfu í Landsrétti um að Arnfríður Einarsdóttir, dómari við dómstólinn, víki sæti úr dómsmáli, sem henni hafði verið úthlutað, vegna vanhæfis. Jafnvel þó að henni verði ekki vísað til hliðar er samt sem áður, eftir að hún fellir dóm, hægt að kæra þann dóm til Hæstaréttar. Ef hann gerir ekkert í málinu er hægt að vísa því til Mannréttindadómstólsins í Strassborg. Þetta getur þýtt að allir dómar þessa dómara verði ólögmætir. Það er réttaróvissa. Það er mjög alvarleg réttaróvissa.

Hvers vegna skiptir þetta máli? Jú, vegna þess að þetta varðar réttaröryggi landsmanna, það varðar það að við eigum rétt á að koma fyrir sjálfstæða, óvilhalla og óháða dómstóla. Er því að skipta? Ráðherra sagði sjálfur í Kveik í sjónvarpinu um daginn, með leyfi forseta:

„Dómarar þurfa líka að vera sjálfstæðir í sínum störfum gagnvart öðrum dómurum. Og þá er mjög mikilvægt að þeir sitji ekki í hæfnisnefndinni sem eru að velja inn dómara, aðrir dómarar. Það er enginn að fara að segja dómurum hvernig þeir eiga að dæma utan réttarins en dómarar geta verið í þakkarskuld við einhvern annan dómara þegar þeir eru að dæma.“

Þá segir fyrirspyrjandinn, Helgi Seljan:

„Eða ráðherra?“

Og ráðherra svarar, með leyfi forseta:

„Eða ráðherra? Já, ég meina, jú, jú, en þú veist, en, jú, jú, það getur verið þannig líka.“

Hún viðurkennir að dómararnir gætu verið í þakkarskuld við hana fyrir að hafa skipað sig. Það er grundvöllurinn fyrir því að ekki séu til staðar það óvilhallir eða óháðir dómarar.

Mig langar bara að gefa dómsmálaráðherra tækifæri til að segja landsmönnum hvað hún hyggst gera í þessari grafalvarlegu stöðu.