148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

hugsanlegt vanhæfi dómara.

[15:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið í fréttum þá hefur lögmaður í dómsmáli ákveðið að láta reyna á það hvort einn dómari við Landsrétt sé hæfur til starfans. Ég veit ekki betur en það verði tekið til umfjöllunar í réttinum í þessari viku og sjálfsagt úrskurðað um það mjög fljótt. Í kjölfarið fer málið væntanlega til Hæstaréttar. Nú verður hver og einn í þessum þingsal að leggja sjálfum sér línurnar, en ég tel ekki rétt að ræða dómsmál hér innan húss.

Ég hef hins vegar sagt þetta: Fyrir liggur dómur Hæstaréttar um að ráðherra hafi ekki rannsakað málið nægilega vel þegar kom að skipun eða vali á dómara. Á það hefur verið bent og ég árétta það enn og aftur að um er að ræða matskennda reglu stjórnsýsluréttarins. Ekki er um það að ræða að dómarar við Landsrétt séu ekki skipaðir með lögmætum hætti. Hér var fylgt lögformlegu ferli. Þeir eru skipaðir í samræmi við lög sem eru ákaflega skýr sem kveða á um að ráðherra leggi tillögu fyrir Alþingi. Í þessu tilviki var það sérstaklega áréttað að ráðherra skyldi leggja tillögu um dómaraefni fyrir Alþingi. Alþingi hafði þannig ákvörðunarvaldið í þessum efnum, hvort sem ráðherra hefði fylgt tillögu hæfnisnefndar eða ekki. Í framhaldinu tók Alþingi ákvörðun, hafði þann kost að samþykkja tillögur ráðherra eða hafna þeim. Eins og menn þekkja mjög vel hér í þessum sal þá samþykkti Alþingi tillögur ráðherra. Skipunarbréf voru í framhaldinu send forsetanum undirrituð af ráðherra og forseta.

Það er því ekki um það að ræða að mínu mati að dómarar hafi ekki verið skipaðir með löglegum hætti.