148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

hugsanlegt vanhæfi dómara.

[15:36]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Að mati dómsmálaráðherra hafa hlutirnir ekki verið einhvern veginn öðruvísi en dómsmálaráðherra heldur, það er ekkert nýtt í því. Aftur á móti hafa sérfræðingar verið að benda á að þetta er réttaróvissa. Það er réttaróvissa þegar dómsmálaráðherra er ekki sammála sérfræðingum í þessu. Skúli Magnússon var skrifstofustjóri EFTA-dómstólsins og EFTA-dómstóllinn hefur þurft að taka á sambærilegu máli. Þetta er mjög einfalt. Ef þú getur ekki verið viss um réttaröryggi borgaranna, rétt borgaranna, að koma fyrir óvilhallan, óháðan dómstól, sem þú getur ekki tryggt í þessu máli, þá á réttarstaða borgarans og réttarríkisins að vera í fyrirrúmi en ekki staða dómsmálaráðherra sem hefur ákveðið að keyra sitt fólk inn í Landsrétt á rauðu ljósi og kannski klessukeyra réttinn á sama tíma.

Þetta var tækifæri fyrir dómsmálaráðherra til að segja landsmönnum hvernig hún hyggst bregðast við í þessu máli. Ráðherra virðist ekki hafa í huga að gera neitt til þess að laga þessa stöðu, en hefur kannski eina mínútu núna til þess að impra á því.