148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Nú verð ég að skora á virðulegan forseta að grípa til sinna ráða þinginu til varnar til að gera því kleift að rækja hlutverk sitt eftir það sem við heyrðum áðan í svörum hæstv. forsætisráðherra. Raunar var ekki mikið um svör en það var mikið um undarlegar yfirlýsingar og virðist vera að ýmislegt hafi skolast til hjá hæstv. ráðherra varðandi þau mál sem þar voru rædd. Ég vil því hvetja hæstv. forseta til að beita sér fyrir því að öll gögn sem liggja fyrir um uppfyllingu stöðugleikaskilyrða sem tengjast Arion banka verði gerð opinber eða að minnsta kosti að þingmönnum verði gert kleift að nálgast þessi gögn.

Hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir áðan að ekki væri um neinn forkaupsrétt að ræða. Herra forseti hlýtur að vera að velta því fyrir sér eins og ég hvernig standi á því að þessir aðilar fari fram á við ríkið að það afsali sér forkaupsrétti ef enginn forkaupsréttur er til staðar. Nú þarf þingið að grípa hér inn í því að yfirlýsingar eins og sú sem kom frá hæstv. forsætisráðherra áðan geta verið stórskaðlegar og það er mikilvægt að við förum að ræða þetta mál (Forseti hringir.) á réttum forsendum.