148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég tek undir þá beiðni sem hér hefur komið fram. Það er okkur öllum í hag að fá það á hreint í eitt skipti fyrir öll hvort þessi forkaupsréttur sé til staðar eða ekki. Ég óska eftir því að herra forseti beiti sér fyrir því að við fáum að sjá þessa samninga. Þá er það á hreinu og þá geta menn ekki hártogast fram og til baka með þetta mál. Þetta er það mikilvægt mál og það mikið í húfi hvað það varðar.

Mig langar einnig að nefna það hér vegna þess að minnst er á Arion banka, af því að ríkið á nú 13% hlut í þessum banka, að fundur var haldinn suður með sjó fyrir skömmu vegna gjaldþrots United Silicon þar sem Arion banki er stærsti lánveitandinn. Þar kom fram að bankinn hefur í hyggju að setja 3 milljarða kr. í uppbyggingu á fyrirtækinu, sem er afar umdeilt á Suðurnesjum. Það er auk þess vert að velta fyrir sér hvort eigandinn að þessum 13%, ríkissjóður, sé samþykkur því að setja þennan pening í fyrirtækið.