148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég ætla að benda þingmönnum Miðflokksins á að fara í lög um þingsköp og ýta á „control find“ og skrifa „fjórð“ — þá ertu kominn með fjórðung nefndarmanna og getur farið í gegnum skjalið. Fjórðungur nefndarmanna getur kallað eftir fundi í nefnd þar sem eitthvert ákveðið mál er tekið fyrir og í þessu tilfelli þetta mál. Þá þurfum við þrjá aðra nefndarmenn en nefndarmenn eru Oddný G. Harðardóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson og Þorsteinn Víglundsson. Þið þurfið bara að fá tvo af þeim í lið með ykkur. Þegar fundur um þetta mál er haldinn getið þið kallað eftir öllum gögnum frá stjórnsýslunni sem varða málið, jafnvel gögnum sem varða trúnað, þau yrðu þá aðgengileg í lokuðu herbergi. Þið getið fengið öll þessi gögn fram samkvæmt þessum lögum. Ég myndi ráðleggja ykkur að gera það, að fá þetta í hendurnar. Að sjálfsögðu á Alþingi að geta rannsakað þessi mál.