148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:57]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Þá hefur forseti ekki veitt því athygli að fleiri bæðu um orðið um fundarstjórn forseta að svo stöddu og vill af tilefni þessarar umræðu taka fram tvennt. Það er ekki ætlunin að menn haldi undir liðnum um fundarstjórn forseta áfram óundirbúnum fyrirspurnum og beini áfram spurningum til ráðherra. Til þess er dagskrárliðurinn sjálfur en mönnum er að frjálst að taka upp efni undir þessum lið og forseti er umburðarlyndur gagnvart því.

Varðandi rétt þingmanna til að óska upplýsinga er hann ríkur og ákaflega mikilvægur og hann er mjög vel tryggður í þingsköpum, í gegnum starfshætti þingnefnda o.s.frv. Þingmenn geta lagt fram fyrirspurnir til munnlegs eða skriflegs svars. Þingmenn geta tekið upp mál innan eða utan dagskrár. Þingmenn geta óskað eftir skýrslum og þingmenn geta í krafti aðildar sinnar að þingnefndum beitt þeim tækjum til að afla upplýsinga.

Til þessa þurfa þingmenn ekki atbeina forseta þannig að forseti sér ekki að ástæða sé til þess að eyða miklum tíma í orðaskipti við forsetann um hluti sem þingmenn hafa sjálfir í sínu valdi, þ.e. að nýta mikilvæg tæki þingsins til að afla upplýsinga sem er ákaflega mikilvægur hluti af eftirlits- og aðhaldsskyldum þingsins. Þetta vildi forseti nú taka fram í lokin á þessari umræðu.