148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[16:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Þegar rætt er um langtímaorkustefnu verður að taka inn í myndina eignarhald á orkufyrirtækjum. Þetta kemur skýrt fram í skýrslu starfshóps sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur skipaði um lagaramma orkumála og er frá árinu 2011. Fróðlegt væri að vita hvort þessi skýrsla vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur frá 2011 verði höfð til hliðsjónar við myndun langtímaorkustefnu vinstri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Sjálfstæðismenn voru ekki hrifnir af þessari skýrslu enda vegið að hugmyndafræði þeirra um einkavæðingu orkufyrirtækja.

Herra forseti. Hver er vilji ríkisstjórnarinnar þegar kemur að eignarhaldi í mikilvægum orkufyrirtækjum? Það er mikilvægt að fá skýrt svar við þessu vegna þess að Sjálfstæðismenn hafa viljað einkavæða mikilvæg orkufyrirtæki og voru komnir vel á veg með það fyrir hrun. Nefna má REI-málið svokallaða. Síðan var það ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar sem lagði grunninn að einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja árið 2007 með því að skilyrða sölu ríkisins á hlut sínum í hitaveitunni til einkaaðila.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ sá síðan um að selja allt fyrirtækið til einkaaðila. Þetta eru stærstu pólitísku mistök sem gerð hafa verið á Íslandi á síðari árum.

Öllum er ljóst að einkafyrirtæki í orkuvinnslu eru ekki að framleiða orku vegna samfélagssjónarmiða eða til að bæta búsetuskilyrði eða lífsgæði almennt og ekki skila þau umframarði af orkuvinnslunni til þjóðarinnar, einkafyrirtæki á borð við HS Orku sem nú ætlar að færa út kvíarnar og virkja á Vestfjörðum eins og hvert annað einkafyrirtæki sem hefur það að markmiði að hámarka arðsemina í þágu hluthafanna sem eru í þessu tilviki að meiri hluta erlendir aðilar. HS Orka er ekki að virkja á Vestfjörðum vegna samfélagssjónarmiða. (Forseti hringir.) Sagan sýnir að Sjálfstæðismönnum er ekki treystandi þegar kemur að eignarhaldi (Forseti hringir.) á orkufyrirtækjunum. Þetta vita Vinstri grænir og (Forseti hringir.) það er viðbúið að samstarf þessara tveggja flokka í mótun eignarhalds á orkufyrirtækjum í langtímaorkustefnunni (Forseti hringir.) sigli fljótlega í strand.