148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[16:18]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, fyrir að hefja máls á þessu afskaplega mikilvæga máli um þessar mundir. Hins vegar vinnst ekki tími til að fara vítt og breitt um sviðið að þessu leyti. Vil ég því beina sjónum mínum að einu tilteknu sviði orkustefnunnar. Nú erum við á hátindi uppsveiflunnar eins og sumir segja. Fjárfestar skima um allt eftir bestu notum fyrir sitt fé.

Fréttir berast vestan úr Dölum um að fjárfestar hyggist reisa þar afkastamikið vindorkuver. Sveitarstjórn reynir að nýta hyggjuvitið við afgreiðslu málsins og eru stóraukin fasteignagjöld gulrót sem fjárvana sveitarstjórnir úti á landi mega illa við að hrinda út af borðinu. Athugið að hérlendis eru einungis þekktar fimm vindmyllur, tvær á Hafinu við Búrfell, tvær í Þykkvabæ og ein í Melasveit.

Á Hróðnýjarstöðum er áformað að reisa allt að 40 vindmyllur. Ef reikningskunnátta mín bregst mér ekki er hér um 800% fjölgun á vindmyllum að ræða á landinu og enn hærri prósentu ef tekið er mið af því afli sem þetta vindorkuver gæti gefið. Þá kemur í ljós að löggjafinn er enn einu sinni tekinn í bólinu og nú á sviði sem er í raun engin nýlunda. Þarna er ég að tala um vindorkuna sem bar forfeður okkar til þessa lands. Í ljós kemur að hérlendis er engin stefna til um eitthvað sem kallast vindorkuver og ef flett er upp í íslenskum lögum skilar lagasafnið auðu að þessu leyti.

Hér er ég auðvitað að kalla eftir því að um þessi mál sé fjallað og settur lagarammi sem tekur mið af því að hér rísi ekki skipulagslítið vindorkuver um allar koppagrundir heldur verði skynsamlega á málum haldið.