148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[16:21]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það er mikilvægt að ræða þessi mál og fá þetta tækifæri til þess að skoða heildstætt hvað við Íslendingar getum gert til lengri tíma varðandi orkumálin. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru gefin ákveðin fyrirheit um langtímaorkustefnu, að hún verði sett á kjörtímabilinu með atbeina allra þingflokka. Ég vil sérstaklega fagna þeirri áherslu.

Ég velti því reyndar fyrir mér hvaða skref verði stigin til þess að vinna með þingflokkunum, en þetta er nú bara rétt að byrja. Ég veit að hæstv. ráðherra, eins og ég þekki hann, mun beita sér fyrir slíku samstarfi. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við náum sem allra bestri sátt um langtímastefnuna varðandi orkumálin. Þetta er eldfimt innan margra flokka, eða þvert á flokka, af því við höfum öll metnað til að umgangast auðlindir okkar af mikill virðingu. Við viljum varðveita náttúruauðlindirnar okkar og nýta þær á sjálfbæran og skynsamlegan hátt.

Nýting auðlindanna er undirstaða velsældar okkar, velferðarkerfis okkar og samfélags. Við höfum ákveðna reynslu, m.a. úr sjávarútvegi, sem að mörgu leyti er góð en að mörgu leyti líka ekki nægilega góð. Sem betur fer stöndum við frammi fyrir skynsamlegri nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Þorskstofninn hefur til að mynda tekið miklum framförum og er orðinn sterkari en áður og það er af því við höfum gengið varlega um þá mikilvægu auðlind.

Eftir stendur að við þurfum að ná samfélagslegri sátt um sanngjarnt gjald fyrir auðlindina. Þess vegna vil ég hvetja ráðherra til að taka þann þátt inn í langtímasýnina varðandi orkustefnuna. Ég var með tíu aðra punkta, herra forseti, til þess að koma að. En það er gríðarlega mikilvægt að þetta verði leiðarljós frá byrjun þannig að við náum sátt um þessa mikilvægu áætlun sem við ætlum öll að koma að, allir þingflokkar. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til dáða í þessu máli.