148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[16:30]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, fyrir að taka þetta mál upp og hæstv. ráðherra Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur fyrir hennar viðveru og ræðu. Þessi umræða um langtímaorkustefnu er nauðsynleg, sérstaklega vegna þess að þegar gerðar eru langtímaáætlanir, eða langtímastefna, um stór mál líkt og þetta eru meiri líkur en minni á að unnið sé markvisst að málum sem taka lengri tíma en segir í stjórnarsáttmála hverrar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnir geta verið skammlífar eins og dæmin sanna. Þó að kjörtímabilið verði fjögur ár getur næsta ríkisstjórn tekið U-beygju í stórum málum en síður ef mótuð hefur verið langtímastefna.

Þar sem ræðutíminn er stuttur langar mig til að víkja að atriði sem ekki er í stjórnarsáttmálanum. Ekki er minnst á sjávarorkuver eða svokallaðar varmadælur. Varmadælur hafa löngu sannað gildi sitt og koma sér vel á köldum svæðum sem víða eru á landsbyggðinni. Þar er þó að finna einhvern hita sums staðar og þær eru afar áhugaverður kostur sem geta lækkað kostnað við rafhitun um 25–80%. Varmadælur eru því umhverfisvæn lausn og bæta orkunýtni og lækka rafhitunarkostnað fólks sem og niðurgreiðslukostnað ríkisins umtalsvert.

Svo eru það sjávarorkuver sem ekki er að finna í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Miklir möguleikar eru á að virkja raforku úr sjávarorku, svokallaðar sjávarfallavirkjanir. Félag um slíka sjávarfallavirkjun var stofnað við Breiðafjörð fyrir nokkrum árum en þar er mikill munur á flóði og fjöru eða sá mesti við Ísland. Eru sjávarstraumar því mjög miklir. Félag þetta hefur ekki haft peningalega burði til (Forseti hringir.) mikilla rannsókna og væri það því spennandi kostur fyrir hið opinbera að koma að því máli og leggja til vinnu um rannsóknir á sjávarorkuverum.