148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[16:33]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við langtímaorkustefnu sem er mikilvægt atvinnu- og umhverfismál. Verkefnið er ótrúlega fjölþætt. Bæði þarf að horfa til mats á orkuþörf til framtíðar og líka skipta úrbætur á núverandi kerfum á þessu sviði miklu máli, bætt nýting á þeirri orku sem búið er að virkja og það þarf að horfa til nýrra leiða við orkuöflunina eins og búið er að fara ágætlega yfir hér. Svo þarf auðvitað að samræma dreifingu og orkuöflun umhverfissjónarmiðum.

Aðgangur að raforku er grunnur atvinnuuppbyggingar og liður í jafnrétti til búsetu um land allt. Þar er víða pottur brotinn. Afhendingaröryggi þarf að bæta. Rafmagnstruflanir á einum stað mega ekki á sama hátt og nú hafa keðjuverkandi áhrif um land allt þar sem áhrifin eru oft mest fjærst biluninni.

Liður í úrbótum á afhendingaröryggi er líka að koma á hringtengingum þar sem þær eru ekki til staðar eins og á norðausturhorninu. Flutningsgeta inn á afmörkuð svæði og eftir byggðalínunni mynda víða flöskuhálsa og koma í veg fyrir að hægt sé að flytja rafmagnið til kaupenda, eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson lýsti ágætlega áðan þegar hann fór yfir stöðu Eyjafjarðarsvæðisins þar sem raforkuskortur stendur atvinnuþróun og uppbyggingu nýrra fyrirtækja fyrir þrifum.

Þrátt fyrir að raforkuverð til heimila í dreifbýli hafi verið jafnað á síðustu árum er ekki hægt að segja það sama um raforkuverð til fyrirtækja í dreifbýli. Þetta veldur t.d. ótrúlega mikilli mismunun í ferðaþjónustunni í dreifbýli. Þetta veldur sveitarfélögum líka verulegum vanda þar sem reknir eru (Forseti hringir.) skólar, sundlaugar og félagsheimili í dreifbýli. Ég tel að þeir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn séu í lykilaðstöðu til að leiða fram sátt í þessari vinnu.