148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[16:37]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda Ara Trausta Guðmundssyni fyrir að taka upp orkustefnu til langs tíma og fjalla um hana á mjög breiðum grundvelli í málefnalegu uppleggi sínu. Sömuleiðis þakka ég hæstv. ráðherra hennar framlag sem ég tel afar mikilsvert fyrir þessa umræðu.

Þessi umræða staðfestir að sínu leyti þýðingu þess að aðkoma Alþingis í stefnumörkun í þessum mikilvæga málaflokki sé tryggð. Við stöndum í okkar samtíma á hvörfum hvað varðar tækniframfarir. Eins og vikið er að í uppleggi hv. málshefjanda eru í augsýn nýir orkugjafar. Hér hefur meðal annars verið vikið að vindorkuverum og sjávarfallaverum sem starfa óháð veðri og vindum, eins og við þekkjum.

Lykilatriðið er ábyrg og sjálfbær nýting auðlinda landsins. Þá erum við komin að því að nefna þýðingarmikla auðlind, kannski þá þýðingarmestu, en það er sjálf náttúra landsins, náttúra Íslands. Ef við hugsum þetta frá þeim bæjardyrum er hún orðin okkur afar mikilvæg sem gjaldeyrisuppspretta og atvinnuskapandi grein sem tryggir byggð allt í kringum landið.

Ef við lítum okkur örlítið nær í tíma er ákveðnum spurningum ósvarað. Til að mynda er virkjunarframkvæmd norður á Ströndum og ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki fyllilega á stefnu stjórnvalda í því máli. (Forseti hringir.) Það er ekki skýrt kveðið upp úr um það í stjórnarsáttmála. Við erum að tala um Hvalárvirkjun (Forseti hringir.) sem hefur sætt mikilli gagnrýni, m.a. af hálfu fyrrverandi formanns Landverndar í greinaflokki í Morgunblaðinu.

Ég leyfi mér að kalla (Forseti hringir.) eftir skýrum svörum af hálfu forystumanna ríkisstjórnarinnar um áform varðandi þá sérstöku framkvæmd.