148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[16:40]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Markmiðið með orkustefnunni er að hluta til kolefnishlutlaust Ísland 2040. Það hefur komið hér fram og eins hversu margþætt orkustefnan er, þar með að vel takist til í alla staði.

Ég þakka þingmönnum fyrir þeirra hlut og ætla aðeins að fjalla um örfá atriði í ræðum þeirra.

Eignarhald: Ég tel að meginstefna eignarhalds eigi að vera samfélagsleg eign. Það eru ósköp hreinar línur af minni hálfu. Hvað stór og lítil vindorkuver varðar er það þannig að það vantar alla ramma um slíka orkuöflun. Nú mun ég leggja fram skýrslubeiðni til Alþingis um að tekin verði saman skýrsla um bæði sjávarfallaorkuver eða sjávarorkuver og vindorkuver. Sú skýrsla verður þá inn í þessa umræðu um orkustefnu og mótun hennar.

Auðlindagjald: Ég lít það frekar jákvæðum augum hvað snertir orkufyrirtækin. Það ber að skoða vandlega. Mig langar að minna á að fyrri skýrsla um orkustefnu var metin mjög almenn. Langur verkefnalisti og tiltölulega almenn orkustefna sem þarf nú að útfæra betur.

Ég vil líka þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar hlut. Hún ræddi um 1.720 megavött. Ég var svolítið varkárari, í 500–1.000. En þetta segir okkur alla vega að ekki er hér með komið að lokum virkjana á Íslandi. Það þarf bara að vanda valið.

Síðan með styrkingu háspennta flutningskerfisins: Hún þarf að gerast til 30–40 ára og við vitum öll að það þarf að verða sambland af loftlínum og jarðstrengjum. Hvernig sem fer er mjög mikilvægt að standa vel að aðkomu þingsins í þessum efnum.

Ég þakka enn og aftur bæði þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir umræðuna.